Í þættinum verða flutt tónverk sem eiga að lýsa októbermánuði. Þar má nefna októberkaflann úr ballettinum "Tólf með póstvagninum" eftir Knudåge Riisager, kaflann "Októberhátíðin" úr tónaljóðinu "Rómverskar hátíðir" eftir Ottorino Respighi og jazztónsmíðina "Undir októberlaufi" sem Carl Möller samdi við ljóð eftir Matthías Johannessen. Einnig verður fluttur söngurinn "October doth before us go" eftir Christian Walter Catsanos, en þar er október lýst sem vormánuði því árstíðirnar á suðurhveli jarðar eru þveröfugar við árstíðir hér á norðurhveli. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Kristján Guðjónsson.