Í þættinum verða leiknar tónsmíðar sem eiga að lýsa sleðaferðum. Mörg tónskáld hafa reynt að lýsa ferð á hestasleða í tónum og má þar nefna feðgana Leopold og Wolfgang Amadeus Mozart, Frederick Delius og Leroy Anderson. Frægt er líka sönglagið "Jingle Bells" eftir James Lord Pierpont sem lýsir klingjandi sleðabjöllum. Skáldið Edgar Allan Poe orti líka ljóð um sleðabjöllur og Arthur Foote samdi lag við það. Tónskáldin Pjotr Tsjaíkovskí og Sergei Prokofíev hafa lýst í tónum ferð á rússneskum sleða, svokölluðum troika, með þremur hestum fyrir. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Björn Þór Sigbjörnsson.