06:50
Morgunútvarpið
23. mars - Umhverfismál, landnemar, Carbfix, Magnús Hlynur o.fl.
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Við byrjuðum daginn á Suðurlandi og slógum á þráðinn til Grétars Hrafns Harðarsonar Rótarý manns sem sagði okkur af forvitnilegu málþingi sem fram fer í Gunnarsholti í dag þar sem nýir tímar og tækifæri í landbúnaði og umhverfismálum á Suðurlandi eru til umfjöllunar.

Næst færðum við okkur svo enn austar og heyrðum í Hrönn Grímsdóttur verkefnisstjóra Landnema verkefnisins á Austurlandi, en Landnema verkefnið er ætlað flóttafólki. Þar eru m.a. veittar upplýsingar og innsýn í mikilvæga þætti sem snúa að búsetu og atvinnu á Íslandi. Hrönn fræddi okkur nánar um það, en slíku verkefni er nýlokið fyrir austan.

Oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði var hjá okkur í gær en hann vill sjá íbúakosningu í Hafnarfirði vegna fyrirhugaðrar verksmiðju sem byggir á carbfix tækninni og óttast að bygging hennar gæti valdið tíðari jarðskjálftum á svæðinu nærri byggð og iðnaðarsvæði. Við fengum til okkar fulltrúa Carbfix, Ólaf Teit Guðnason samskiptastjóra, til að ræða þessar áhyggjur oddvitans og uppbygginguna sem framundan er í Straumsvík.

Ef keppt væri um jákvæðasta mann Íslands væri Magnús Hlynur Hreiðarsson sigurstranglegur, en þessi geðþekki fjölmiðlamaður tekur hverjum degi með bros á vör. Hans einstaka fréttanef hefur þefað uppi fyndnar og forvitnilegar fréttir af mönnum og málleysingjum í mörg ár og nú er von á nýjum þáttum frá kappanum sem bera titilinn Mig langar að vita. Mjög svo lýsandi fyrir Magnús Hlyn, sem vill alltaf vita meira. Hann kíkti til okkar.

Í fyrradag fékkst hæsta verð fyrir listaverk hér á landi við hamarshögg hjá uppboðshúsinu Gallerý Fold. Um er að ræða steyptan bronsskúlptúr eftir Einar Jónsson myndhöggvara sem heitir Þróun en verkið fór á 14 milljónir króna í heildina. Við fengum Jóhann Ágúst Hansen framkvæmdastjóra og uppboðshaldara Gallerí Foldar til okkar til að ræða þessa sögulegu sölu og listaverkauppboðsbransann.

Það er landsleikur í kvöld þegar Ísland mætir Bosníu-Hersegóvínu í knattspyrnu karla ytra. Leikurinn verður sýndur á Viaplay og við fengum Hjörvar Hafliðason til okkar, sjálfan Doktor Football og íþróttastjóra Viaplay, til að rýna í leikinn sem framundan er og stöðu landsliðsins.

Tónlist:

Trúbrot - My friend and I.

Stebbi JAK - Líttu í kringum þig.

Diljá - Power.

Helgi Björns - Besta útgáfan af mér.

Axel Flóvent - Forest fires.

Sade - Smooth operator.

Manic Street Preachers - A design for life.

Var aðgengilegt til 22. mars 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,