11:03
Mannlegi þátturinn
Friður og fjölmenning, EMDR og Neytendasamtökin 70 ára
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson

Tanya Aleksandersdóttir er frá Úkraínu en hefur búið á Íslandi um árabil. Hún er kennari og túlkur og þekkir vel til og hefur aðstoðað þau sem hafa komið hingað til lands frá Úkraínu frá því að stríðið hófst. Tanya kom í þáttinn og sagði okkur frá sinni reynslu af því að koma sér fyrir í íslensku samfélagi. Með henni kom Sigurvin Lárus Jónsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, hann sagði okkur frá sjónvarpsþætti sem verið er að vinna á vegum Fríkirkjunnar undir yfirskriftinni friður og fjölmenning. Í þættinum koma saman einstaklingar af fjölbreyttum uppruna sem iðka mismunandi trúarbrögð og til dæmis sameinast í bæn fyrir friði auk þess sem flutt verður lifandi tónlist og hugvekjur. Þau Tanya og Sigurvin sögðu okkur meira frá þessu í þættinum.

Vegna afbókunar með stuttum fyrirvara endurfluttum við viðtal frá því á þriðjudaginn við Dr. Gyðu Eyjólfsdóttur, sálfræðing og sérfræðing í klínískri sálfræði. Við höfum fjallað talsvert undanfarið í þættinum um áföll og afleiðingar áfalla og áfallastreitu og meðferðarúrræði. Í þeim umræðum, við sálfræðinga og sérfræðinga hefur EMDR meðferð oft verið nefnd. En hvað er EMDR meðferð? Dr. Gyða kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um EMDR meðferðir.

Í dag, 23. mars, eru 70 ár frá stofnun Neytendasamtakanna hér á landi, en þau eru með elstu neytendasamtökum í heimi. Samtökin, eins og nafnið bendir til, vinna að hag hins almenna neytanda á Íslandi og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um sögu og þróun samtakanna og svo skoðuðum við stöðuna í dag, hvað ber hæst í starfseminni í dag og Breki rýndi með okkur í framtíð neytendamála.

Tónlist í þættinum í dag

Lítið ljóð / Rebekka Blöndal (Ásgeir Ásgeirsson, Rebekka Blöndal og Stefán Örn Gunnlaugs)

Ást og friður / Halli Reynis og Vigdís Jónsdóttir (Halli Reynis)

Lady Winter / Svavar Knútur (Svavar Knútur Kristinsson)

UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
,