06:50
Morgunútvarpið
28. sept - gasleiðsla, kirkjuheimsóknir og HM í Katar
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Fredriksen, fullyrti í gær að skemmdir hefðu verið unnar á tveimur gasleiðslum Nord Stream sem liggja neðansjávar í Eystrarsaltinu, með þeim afleiðingum að mikið gas lekur nú út í hafið en marga daga gæti tekið að gera við leiðslurnar. Við erum forvitin um þetta mál og hvernig fyrirbæri þessar gasleiðslur eru svo við hringdum í Guðrúnu Sævarsdóttur dósent við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík sem kom og fræddi okkur betur um þykkt og breidd svona leiðsla, hvernig þær eru lagðar og svo framvegis.

Þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að banna eigi ónauðsynlegar aðgerðir og rannsóknir á börnum. Í greinargerð frumvarpsins er meðal annars vísað til lífsskoðana foreldra sem gætu ýmist krafist ónauðsynlegra aðgerða eða synjað heimild til nauðsynlegra aðgerða á börnum. Við fengum að heyra betur hvað Flokkur fólksins er að pæla í þessu tiltekna máli þegar Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður þeirra kom til okkar.

Klukkan korter í átta ræddum við við séra Davíð Þór Jónsson, prest í Laugarneskirkju, en heimsókn grunnskólabarna þangað verður afþökkuð á komandi aðventu. Í tilkynningu frá kirkjunni kemur fram að það sé vegna þeirrar andstöðu og sundrungu sem heimsóknirnar hafa skapað.

Forvirkar rannsóknarheimildir eru aftur til umræðu hér á landi, en að þessu sinni eftir að lögreglu tókst að afstýra hættuástandi hér á landi í síðustu viku þegar hún lét úrskurða tvo menn í gæsluvarðhald sem hún telur að hafi ógnað öryggi lögreglu og Alþingis. Til að ræða þessi mál komu til okkar tvær þingkonur, þær Diljá Mist Einarsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir frá Pírötum

Kaupmáttur launa heldur áfram að rýrna samkvæmt nýrri úttekt Landsbankans. Tæplega tólf ára semfelldri kaupmáttaraukningu lauk í júní á þessu ári, sé horft til breytinga milli ára. Við ræddum þessa þróun við Ara Skúlason, hagfræðing hjá Landsbankanum.

Það styttist í heimsmeistaramót karla í fótbolta sem verður haldið í Katar í nóvember og desember. Katar hefur legið undir verulegu ámæli vegna aðbúnaðar farandverkafólks í aðdraganda HM og vegna slæmrar stöðu mannréttinda í landinu. Það vakti til að mynda athygli í vikunni þegar Eric Cantona, fyrrum leikmaður Manchester United og goðsögn í knattspyrnuheiminum, sagðist ekki ætla að horfa á Heimsmeistaramótið. Við ræddum við Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamann, um mótið og hvort eina vitið sé að sniðganga það.

Var aðgengilegt til 28. september 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,