16:05
Síðdegisútvarpið
10. ágúst
Síðdegisútvarpið

Nýlega kom upp á yfirborðið myndefni úr opnu sjókvíeldi í Dýrafirði og Arnafirði. Myndefnið var tekið upp í apríl af kajakræðaranum Veigu Grétarsdóttur sem er í þessum orðum að róa hringinn í kringum landið til þess að taka myndir af ruslinu sem er að finna í sjónum við Íslandsstrendur. Við heyrum í Veigu á eftir.

Umræðunni um loftslagsmál er hvergi nærri lokið og líklegast aðeins rétt að hefjast ef marka má nýjustu skýrslu IPCC sem kom út í gær. Hún er svört og vandinn er óneitanlega aðkallandi. Skilaboðin eru skýr, við þurfum að gera allt sem við getum til að sporna við hlýnun jarðar og það strax. Jón Ágúst Þorsteinsson doktor í orkuverkfræði og forstjóri Klappa sem sérhæfir sig í umhverfisvænum lausnum kemur til okkar að ræða málin.

Í sumar hafa starfsmenn Vegagerðarinnar verið á fullu í endurbótum á vegakerfi landsins. Í dag er verið að fræsa hringveginn við Ölfusárbrú svo dæmi sé tekið, og umferð á vesturleið beint um Eyrarbakkaveg. við tökum stöðuna með G. Pétri Matthíassyni upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar

Íslandsmeistaramótið í haglabyssugreininni Skeet, eða leirdúfuskotfimi, fór fram á velli Skotíþróttafélags Suðurlands við Þorlákshöfn um síðustu helgi á vegum Skotíþróttasambands Íslands. Stefán Gísli Örlygsson úr Skotfélagi Akraness varð Íslandsmeistari í flokki karla. Við kynnum okkur þessa grein betur og kynnumst einnig íslandsmeistaranum í þættinum á eftir.

Var aðgengilegt til 10. ágúst 2022.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,