12:20
Hádegisfréttir
Hádegisfréttir 6. apríl 2021
Hádegisfréttir

Útvarpsfréttir.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki megi skikka fólk til dvalar á sóttvarnahóteli gæti komið í veg fyrir að hægt verði að létta á sóttvarnaaðgerðum innanlands, segir sóttvarnalæknir. Hann hefur ákveðið að áfrýja dómnum.

Reglur á landamærum voru rýmkaðar á miðnætti. Nú má fólk frá löndum utan Schengen koma til landsins sé það með mótefni gegn kórónuveirunni. Yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir mikla lagalega óvissu gera lögreglu erfitt fyrir. Erlendir ferðamenn frá hárauðum löndum sem ekki geta sýnt fram á hótelbókun verða skikkaðir á sóttkvíarhótel, aðrir ekki.

Formaður velferðanefndar Alþingis segir framkvæmdir sóttvarnaraðgerða alfarið á ábyrgð heilbrigðisráðherra, ekki sóttvarnarlæknis. Fundur nefndarinnar með heilbrigðisyfirvöldum stendur enn yfir.

Tengsl eru milli bóluefnis Astra Zeneca við Covid nítján og blóðtappamyndun, segir yfirmaður bóluefnadeildar Evrópsku lyfjastofnunarinnar. Fleiri tilfelli blóðtappa séu hjá yngra fólki en búast hefði mátt við.

Lokað verður upp að gosstöðvunum í Geldinga- og Meradölum í dag vegna mengunarhættu. Ný 150 metra yfirborðssprunga á milli gosanna kom í ljós í nótt. Heildarkvikustreymi á svæðinu hefur aukist eftir að nýju sprungurnar opnuðust í gær.

Grænlendingar kjósa bæði til þings og sveitastjórna í dag, stjórnarandstöðunni var spáð framgangi í þingkosningunum í nýlegri könnun, en margir kjósendur voru enn óákveðnir.

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta segir ágætis stíganda í liðinu en íslenska liðið mætir Slóveníu í umspili um sæti á HM síðar í mánuðinum.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 22 mín.
,