
Orð geta verið stór og orð geta verið smá. Þau geta verið nógu kraftmikil til að skapa heilan heim og þau geta verið svo hversdagsleg að við tökum ekki einu sinni eftir þeim. Orð geta líka verið svo umfangsmikil að það tekur heilu kynslóðirnar að skilja þau til hlítar. Þetta eru orðin sem við skiljum ekki.
Í bókinni Um tímann og vatnið fjallar Andri Snær Magnason um þær grundvallarbreytingar sem munu verða á mannlífi og jarðlífi á næstu hundrað árum vegna hnattrænnar hlýnunar. Þessar breytingar eru „flóknari en flest það sem hugurinn er vanur að fást við, stærri en öll fyrri reynsla okkar, stærri en tungumálið.“ Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Þorvaldur S. Helgason fjallar um tímann og vatnið, kafar dýpra í helstu umfjöllunarefni bókarinnar og ræðir við vísindamennina, heimspekingana og aðgerðasinnana sem hafa helgað líf sitt því að rannsaka málefni sem eru stærri og flóknari en orð fá lýst.
Umsjón: Þorvaldur S. Helgason
Tónlist: Högni Egilsson.
Sérstakar þakkir: Andri Snær Magnason
Höf og vötn þekja rúm 71 prósent alls lands hér á jörðu en þrátt fyrir að hafið sé bæði djúpt og dularfullt þá er ekki þar með sagt að það sé utan áhrifasvæðis mannsins. Sú hnattræna hlýnun sem mannkynið hefur orsakað með bruna kolefnaeldsneytis er að valda grundvallarbreytingu á eðli vatns á jörðinni. Bráðnun jökla hefur tvöfaldast á síðustu tuttugu árum, golfstraumurinn er veikari en hann hefur verið í þúsund ár og sýrustig hafsins er að breytast meira en sést hefur í 50 milljón ár.
Í fimmta þættii þáttaraðarinnar sem byggð er á bók Andra Snæs Magnasonar Um tímann og vatnið, fjallar Þorvaldur S. Helgason um þau áhrif sem loftslagsbreytingar eru að valda á hafi og jöklum. Viðmælendur þáttarins eru Hrönn Egilsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands.
Umsjón: Þorvaldur S. Helgason.
Tónlist: Högni Egilsson.
Upplestur: Katrín Ásmundsdóttir.
Sérstakar þakkir: Andri Snær Magnason.