Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Konur og kvár lögðu niður störf um allt land í dag og fjölmenntu á samstöðufundi á Arnarhóli. Kastljós ræddi við fundargesti á Arnarhóli í Reykjavík og á Akureyri.
Það eru liðin tæp fjögur ár frá því að Samherjamálið kom upp og Héraðssaksóknari hóf rannsókn á meintum efnahagsbrotum, peningaþvætti og mútugreiðslum til Namibíumanna. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í fréttum RÚV í nóvember í fyrra að rannsóknin væri langt komin og að það styttist í að henni lyki. Hún stendur hins vegar enn, núna tæpu ári síðar. Kastljós settist niður með Ólafi og spurði hann hvað væri eiginlega að gerast í málinu.
Stafræn fatahönnun er að verða sífellt fyrirferðarmeiri í tískugeiranum. Hún er bæði til þess fallin að draga úr sóun á textílefni og getur opnað á ný tækifæri, sérstaklega fyrir smærri hönnunarfyrirtæki. Við kynntum okkur málið.