06:50
Morgunútvarpið
18. sept. - Borðtennis, herminám, eiturefni, hatursorðræða, loftslag
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Þegar við heyrum talað um borðtennis á Íslandi hugsum við sjálfsagt mörg um meistarann Guðmund Stephensen, en það eru fleiri en hann sem spila borðtennis. Satt best að segja er borðtennis á Íslandi í mikilli sókn og ekki síst á Suðurlandi skilst okkur. Til að segja okkur meira af uppsveiflu í íslenskum borðtennis var Auður Tinna Aðalbjarnardóttir á línunni alla leið frá Strasbourg þaðan sem hún leiðir Borðtennissamband Íslands af mikilli ástríðu.

Við kynntum okkur herminám enda mun þessi vika vera alþjóðleg herminámsvika. Herminám er m.a. í boði við Háskóla Íslands og þessa dagana er einmitt verið að stækka og endurbæta færni- og hermisetrið í Eirbergi. Sýndarsjúklingar af fullkomnustu gerð eru lykilatriði í þessu samhengi. Karítas Gunnarsdóttir sérfræðingur í barnahjúkrun og verklegri kennslu í meðferð bráðveikra barna og Dröfn Ágústsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri komu til okkar og fræddu okkur um herminám, tilgang þess og árangur.

Sérfræðingar segja megnið af þeim 86 þúsund kemísku efnum sem finnast út um allt í umhverfi okkar, matvælum, leikföngum, snyrtivörum, fatnaði o.s.frv. hafi aldrei hlotið fullnægjandi efnaprófanir sem sýni fram á þau séu örugg. Þetta kemur fram í grein á Guardian sem birt var í síðustu viku. Þar er spurningunni hvort allur þessi fjöldi og magn kemískra efna í umhverfi okkar tengst fjölgun krabbameinstilfella hjá ungu fólki og fleiri heilsukvillum velt upp. Una Emilsdóttir umhverfislæknir ræddi málið við okkur.

Höfum við flotið sofandi að feigðarósi þegar að kemur að hatri og hatursorðræðu í samfélaginu? Eyrún Eyþórsdóttir, doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræðum kom til okkar. Við ræddum við hana um hatursorðræðu, hvernig skal nálgast hana og hvort við séum að bregðast alltof seint við?

Hitamet hafa verið slegin það sem af er septembermánuði í norður Evrópu. Hitabylgja gekk á dögunum yfir í Bretland þar sem yfir 30 gráður mældust samfellt i heila viku. Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður á skrifstofu loftslagsþjónustu- og aðlögunar kom til okkar og fór yfir stöðuna nú þegar sumri er lokið, eða ætti að vera það í það minnsta.

Við lukum svo þættinum á því að spá aðeins í sportið og helstu tíðindi af íþróttum helgarinnar þegar Kristjana Arnarsdóttir íþróttafréttamaður leit við.

Tónlist:

Jónfrí - Andalúsía.

Fleetwood Mac - Dont stop.

Van Morrison - Meet me in the Indian summer.

Pálmi Gunnarsson - Ég skal breyta heiminum.

Steve Miller Band - Abracadabra.

Lizzo - About damn time.

Gus Gus - Over.

Var aðgengilegt til 17. september 2024.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,