06:50
Morgunvaktin
Margar hliðar á því að setja íslenskuákvæði í stjórnarskrá
Morgunvaktin

Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.

Metfjöldi karla innritaðist í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri í haust, eða 26 talsins. Við ræddum þetta við Gísla Kort Kristófersson, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.

Við setningu Alþingis í síðustu viku fjallaði forseti Íslands um þær miklu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á síðustu áratugum og sagði meðal annars að í stjórnarskrá mætti vera kveðið á um það sem segir nú þegar í lögum; að íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Þessu veltum við fyrir okkur í þættinum í dag með Eiríki Rögnvaldssyni, fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði. Hann fór yfir kosti og galla stjórnarskrárákvæðis um þjóðtunguna upp úr hálf átta.

Alþingi var já sett í síðustu viku en það er víðar en á Íslandi sem pólitíkin er að fara af stað. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins flutti á dögunum stefnuræðu sína á Evrópuþinginu. Í henni komu fram áherslur framkvæmdastjórnarinnar næsta árið en kjörtímabili þingsins lýkur í vor. Björn Malmquist, tíðindamaður Útvarps í Brussel, sagði frá. Von der Leyen var líka á Ítalíu í gær og ræddi innflytjendamál.

Í síðasta hluta þáttarins var fjallað um ástand mála í Marokkó eftir jarðskjálftann fyrir tíu dögum. Yfir 2.900 létust, þúsundir slösuðust og fjölmargir misstu heimili sín. Dominique Plédel Jónsson þekkir vel til í Marokkó, hún hefur margsinnis heimsótt landið og hóf fjársöfnun fyrir neyðarstarf í landinu fáeinum dögum eftir hamfarirnar.

Tónlist:

Carpenters - Jambalaya.

Cassidy, Eva, London Symphony Orchestra - Autumn Leaves (Radio Edit).

Manal - Niya

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,