16:05
Síðdegisútvarpið
24. apríl
Síðdegisútvarpið

Þau Guðrún Dís Emilsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Andri Freyr Viðarsson halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu í eftirmiðdaginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.

Sumarið er komið, það var staðfest með dagatalinu þegar Sumardagurinn fyrsti rann upp á fimmtudaginn var. Á hverju vori hafa Sniglar og Samgöngustofa haldið svokallaðan vorfund þar sem farið er yfir helstu öryggisatriði sem bifhjólamenn þurfa að hafa í huga fyrir komandi mánuði. Einnig er farið yfir slysatölfræði og fleiri skyld mál er varða öryggi þeirra. Slíkur fundur var einmitt haldinn á Sumardaginn fyrsta. Það hefur einnig verið venja að einhverjir bifhjólamenn segja frá því sem fyrir augu þeirra hefur borið, jafnt innanlands sem utan. Þær Jokka G. Birnudóttir, meðstjórnandi í stjórn Sniglanna og formaðurinn, Þorgerður Hoddó Guðmundsdóttir, komu til okkar í spjall.

Eins og kunnugt er í fréttum þá strandaði flutningaskipið Wilson Skaw við Ennishöfða í Húnaflóa og er nú unnið að því að tæma það svo hægt sé að draga það í fyrstu til Hólmavíkur og síðan til Akureyrar í viðgerð. Varðskipið Freyja er nú við skipið og vinnur í því að færa til saltfarminn. Við hringdum beint í brúnna á Freyju og töluðum við Einar Valsson skipherra.

Vegfarandur um Nýju Hringbrautina í Reykjavík hafa tekið eftir að framkvæmdir eru hafnar í Hljómaskálagarðinum, þessum sívinsæla garði höfuðborgarbúa. En hvað er verið að gera þarna og verður garðurinn lokaður í sumar vegna þessa? Við vitum að hönnunin á breytingunum var gerð í samvinnu við viðburðateymi borgarinnar sem hefur mikla reynslu af skipulagningu viðburða í miðborginni og þekkir því þarfirnar vel. Við hringdum því í Björg Jónsdóttur sem er yfir viðburðadeild Reykjavíkurborgar.

Erlendur Eiríksson og Fjóla Einarsdóttir hafa lengi dreymt um að framleiða veganosta á Íslandi. Nú má segja að draumurinn hafi ræst því þau eru komin með starfsleyfi, sem er það fyrsta sem veitt hefur verið hér á landi til grænkera ostagerðar. Framleiðsla er hafin í Hveragerði undir merkjum Lifefood og næsta skref er að koma þessu á markað. Erlendur Eiríksson var á línunni.

Ungmennafélag Hrafnkels Freysgoða í Breiðdal keppti um helgina í Íslandsmóti barna og unglinga í karate. Þetta er í fyrsta sinn sem iðkendur félagsins keppa á landsvísu en karate hefur verið iðkað hjá félaginu í um tvö ár. María Helga Guðmundsdóttir, karateþjálfari hjá Hrafnkeli Freysgoða, sem einnig er jarðfræðingur og þýðandi var á línunni.

Var aðgengilegt til 23. apríl 2024.
Lengd: 1 klst. 54 mín.
,