Í tilefni af hálfrar aldar afmæli Fjölbrautaskólans í Breiðholti hefur skólinn gefið út bókina Fjölbraut í 50 ár – Saga Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1975–2025. Í bókinni er rakin viðburðarík saga þessa elsta fjölbrautaskóla landsins sem markaði tímamót í íslenskri skóla- og menntasögu. Í bókinni er sagt frá námi og kennslu, eftirminnilegum nemendum og metnaðarfullu starfsfólki sem mótað hefur skólann. Bókin er skrifuð af Andra Þorvarðarsyni, sögukennara við skólann og hann kom til okkar í dag.
Um áramót er tími nýrra tækifæra og nýrra markmiða. Hefur þú einhvern tíma ætlað þér eða langað til að prófa sjósund en ekki þorað enn? Tinna Thorlacius og Margrét Leifsdóttir standa fyrir námskeiði í sjósundi sem ber heitið Glaðari þú. Þær segja að allir sem vilja geti stundað sjóböð. Hugmyndafræði Glaðari þú er að stunda sjóinn með mildi, hlustun, slökun og leikgleði að leiðarljósi. Þær komu í þáttinn í dag.
Lesandi vikunnar í Mannlega þættinum í þetta sinn var Ævar Þór Benediktsson leikari og einn vinsælasti rithöfundur landsins. Hann hefur sent frá sér tæplega fjörutíu bækur og fengið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, bæði innan lands og utan. Nýjasta bókin hans, Skólastjórinn, er tilnefnd Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og var ein best selda bókin fyrir jólin. Hann stígur svo aftur á svið þessa dagana í einleiknum Kafteinn Frábær, bæði sunnan og norðan heiða. Hann sagði okkur aðeins frá því og svo auðvitað aðallega frá því hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina. Ævar talaði um eftirfarandi bækur og höfunda:
Sólgos e. Arndís Þórarinsdóttir
Yes, Please e. Amy Poehler
Jim Henson e. Brian Jay Jones
Future Boy e. Michael J. Fox
Stephen King og Kurt Vonnegut
Tónlist í þættinum:
Skítaveður / Bogomil Font (Bragi Valdimar Skúlason)
It Was a Very Good Year / Frank Sinatra (Ervin Drake)
I call your name / Mamas and the Papas (John Lennon og Paul Mcartney)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON