Á föstudaginn verður íslensk-pólsk veforðabók opnuð formlega, en hún hefur verið í undirbúningi undanfarin ár. Orðabókin mun nýtast þeim fjölmörgu íbúum Íslands sem hafa pólsku að móðurmáli og Stanislaw Bartoszek, málfræðingur, skjalaþýðandi og ritstjóri veforðabókarinnar, kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá bókinni og þessu stóra verkefni. Slóðin á veforðabókina verður www.pl.is
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að heilsutengdur ávinningur af því að hreyfa sig úti sé margfaldur á við það að hreyfa sig inni. Kolbrún Kristínardóttir yfirsjúkraþjálfari á Æfingastöðinni er mikil áhugamanneskja um útilíf og heilsu og hefur leitt skipulagðar fjölskyldugöngur og fræðslu um málefnið víðsvegar, nú síðast með erindinu „Af hverju að vera inni þegar vonin er úti?“ á Læknadögum. Kolbrún kom í þáttinn í dag.
Svo var það veðurspjallið með Einari Sveinbjörnssyni. Í dag ræddum við við hann um logn og ótal samheiti fyrir lognið. Svo eru það loftslagsmálin, en árið 2024 fór meðalhækkun hitastigsins í heiminum í fyrsta skipti yfir eina og hálfa gráðu og Einar talaði um nálgun ýmissa þjóða í þessum málum þessa dagana.
Tónlist í þættinum í dag:
Með þér / Ragnheiður Gröndal (Bubbi Morthens)
Við stóran stein / Hildur Vala (Valgeir Guðjónsson)
The Windmills of Your Mind / Helena Eyjólfsdóttir og Hljómsveit Ingimars Eydal (Alan Bergman, Marilyn Bergman og Michel Legrand)
Dátt er blessað lognið / Þrjú á palli (höf. lags ókunnur, texti Jónas Árnason)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON