ok

Mannlegi þátturinn

Viltu finna milljón, trérennismíði og Spánarpóstkort frá Magnúsi

Við héldum áfram að skoða heimilisfjármálin í dag og skoðuðum í dag þætti sem hafa verið í sýningu á Stöð 2 og kallast Viltu finna milljón. Þar taka þrjú pör, eða þrjár fjölskyldur, þátt í að taka í gegn heimilisbókhaldið, þau fá ýmis verkefni og áskoranir með það að markmiði að bæta fjárhag sinn og að búa til venjur til framtíðar þegar kemur að fjármálunum. Í upphafi skoða þau til dæmis tekjur heimilisins og útgjöld og að lokum, eftir fimm mánuði er farið yfir stöðuna og hvaða árangri þau hafa náð í að bæta stöðu heimilisins. Hrefna Björk Sverrisdóttir og Grétar Halldórsson sömdu samnefnda bók og Hrefna, sem er annar stjórnandi þáttanna, kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá þáttunum og hversu miklu er hægt að breyta á tiltölulega skömmum tíma.

Félag trérennismiða á Íslandi fagnar í ár 30 ára afmæli og heldur af því tilefni sérstakan listviðburð í samstarfi við Hönnun & Handverk (H&H) að Eiðistorgi. Í aprílmánuði mun félagið taka yfir sýningarrými Handverks og hönnunar. Þar munu félagar setja upp fullbúna vinnustofu þar sem þeir vinna svo að trérenniverkum á staðnum og fólk getur komið og skoðað handverkið þegar það verður til. Edda Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar, og Andri Snær Þorvaldsson, formaður Félags trérennismiða á Íslandi komu í þáttinn.

Svo fengum við póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni. Magnús er núna staddur á Spáni þar sem hann bjó um hríð fyrir nokkrum árum. Hann segir okkur frá þeirr góðu tíð sem ríkir á Spáni þar sem hagvöxtur er sá mesti í Evrópu. Sem þykir merkilegt því þar stjórna sósíalistar sem hingað til hafa ekki verið taldir snjallir i kapitalisma. Hann segir aðallega frá Alicante, borginni sem hann bjó í á sínum tíma og þykir ennþá vænt um.

Tónlist í þættinum í dag:

Verðbólgan / Brimkló (Björgvin Halldórsson, texti Kjartan Heiðberg)

Láttu mig gleyma / Stuðmenn (Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon og Þórður Árnason, texti Þórður Árnason)

Augun mín / Bubbi Morthens (Bubbi Morthens)

Jennifer Juniper / Donovan (Donovan)

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Frumflutt

9. apríl 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: mannlegi@ruv.is

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Þættir

,