
Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Í Kilju vikunnar segir Guðmundur Andri Thorsson okkur frá nýrri bók eftir sig sem nefnist Rimsírams. Bókin inniheldur stutta texta úr smiðju höfundarins, hugleiðingar um mannlífið, pólitík, náttúru, listir og sitthvað fleira ? og sumt reyndar í kvæðaformi. Guðfinna Ragnarsdóttir hittir okkur á Skólavörðustíg, hún ólst þar upp í litlum bæ sem var kallaður Tobbukot. Frásögn Guðfinnu frá gömlu Reykjavík er mjög lífleg, en sjálf er hún Reykvíkingur af tíundu kynslóð. Bók hennar nefnist Á vori lífsins. Þorsteinn Gunnarsson, arkitekt og leikari, ræðir um bók sína sem nefnist Nesstofa við Seltjörn. Þar rekur Þorsteinn sögu þessa merkilega húss sem var reist 1761-1767 sem embættisbústaður Bjarna Pálssonar, fyrsta landlæknisins á Íslandi. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Jarðsetningu eftir Önnu Maríu Bogadóttur, Arf og umhverfi eftir Vigdis Hjorth og Kirkjugarð hafsins eftir Aslak Nore.