Ferðasagan sem við fengum að heyra í dag var frá hjónunum Alberti Geirssyni og Sigríði Júlíusdóttur. Albert hafði látið sig dreyma um að sigla á skútu en var eiginlega búinn að afskrifa það, þau höfðu sem sagt enga reynslu af seglskútum. En með stuttum fyrirvara keyptu þau sér skútu fyrir þremur árum og svo aðra núna í ár sem þau sóttu í maí til suðurstrandar Englands og sigldu uppeftir vesturströnd Englands til Skotlands, þaðan til Færeyja og svo til Stöðvarfjarðar þar sem þau búa. Þau heilluðust mikið af vestur-Skotlandi og skosku eyjunum og hyggja á ferð aftur þangað á næsta ári. Við töluðum við þau þar sem þau voru á skútunni á Húsavík og fengum þau til að segja okkur siglingasögu sína, en þau eru á siglingu um Ísland þetta sumarið.
Vigdís Hafliðadóttir, söng- og leikkona, kom svo í þáttinn og sagði okkur frá lagi vikunnar, sem var L'amour með hljómsveitinni Flott. Lagið var samið í tilefni brúðkaups bassaleikarans í hljómsveitinni.
Fugl dagsins var auðvitað á sínum stað eftir fyrsta lag.
Tónlist í þætti dagsins:
Leyndarmál / Ásgeir Trausti (Ásgeir Trausti Einarsson, Einar Georg Einarsson og Júlíus Aðalsteinn Róbertsson)
Sailing / Rod Stewart (Gavin Sutherland)
Söngur um lífið / Rúnar Júlíusson (höf. Óþekktur, texti Þorsteinn Eggertsson)
L amour l amour l amour / Mouloudji (Jack Arel & Yves Stephane)
L amour / Flott (Vigdís Hafliðadóttir og Ragnhildur Veigarsdóttir)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG BRYNHILDUR BJÖRNSDÓTTIR