Við kynntumst í dag starfsemi AFS á Íslandi, en það eru skiptinemasamtök sem annars vegar senda íslenska unglinga í skiptinám erlendis og hins vegar taka á móti erlendum unglingum, hvaðanæva að úr heiminum til Íslands. Í ágúst er væntanlegur hingað til lands hópur skiptinema á vegum AFS og nú er verið að leita að fósturfjölskyldum fyrir þau. Katalin Elizabet Karácsony, sem kom hingað frá Ungverjalandi sem skiptinemi fyrir sjö árum, og Björt Þorleifsdóttir, sem hefur tvisvar fengið til sín erlenda skiptinema, komu í þáttinn og sögðu frá.
Við hringdum í Björgu Árnadóttur, sem er á þriggja mánaða bakpokaferðalagi um Evrópu. Við töluðum við hana áður en hún lagði af stað í ferðalagið og nú fengum við að vita hvernig gengur, en hún var stödd í Serbíu eftir talsvert ferðalag meðal annars til Póllands og Rúmeníu.
Páll Ásgeir Ásgeirsson verður með okkur á fimmtudögum í sumar með það sem við köllum Veganestið. Hann ætlar þá að deila með okkur reynslu sinni og góðum ráðum af útivist og útiveru. Síðasta fimmtudag gaf hann góð ráð í samband við fyrstu skrefin, fyrir þau sem vilja byrja að stunda útivist, en í dag kom hann með góð ráð þegar kemur að því að ákveða hvert skal haldið.
Svo var fugl dagsins auðvitað á sínum stað eftir fyrsta lag.
Tónlist í þættinum
Í sól og sumaryl / Hljómsveit Ingimars Eydal (Gylfi Ægisson)
Pata pata / Miriam Makeba (J. Rogovoy, Jerry Ragovoy & Miriam Makeba)
Fun, fun, fun / Beach Boys (Brian Wilson & Mike Love)
Riggarobb / Papar (þjóðlag, texti e. Jónas Árnason)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR