Á Óperukvöldi útvarpsins fim. 6. mars verður flutt óperan „Gagnrýnandinn“ eftir Charles Villiers Stanford, byggð á leikriti eftir 18. aldar rithöfundinn Richard Brinsley Sheridan. Í tilefni af því verður þátturinn „Á tónsviðinu“ sama dag einnig helgaður tónlist við leikrit Sheridans. Sheridan fæddist 1751 og dó 1816. Hann þykir vera eitt merkasta leikritaskáld Bretlandseyja á 18. öld og meðal frægra leikrita hans eru „The Rivals“ og „The School of Scandal“. Síðarnefnda leikritið var flutt sem útvarpsleikrit hjá Ríkisútvarpinu árið 1966 og hét þá „Mannskemmdaskólinn“ í þýðingu Árna Guðnasonar. Í þættinum verða flutt nokkur brot úr þessari útvarpshljóðritun á leikritinu. Einnig verður flutt tónlist við verk Sheridans eftir Thomas Linley yngri, Christoph Ernst Friedrich Weyse, Roberto Gerhard og Sergei Prokofiev. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir og lesari er Gunnar Hansson.