16:05
Víðsjá
Dagur Hjartarson/Sporðdrekar, Pétur Thomsen og Tókýó-Montana hraðlestin/rýni
Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir.

Sporðdrekar birtast á ýmsum stöðum í nýútkominni skáldsögu Dags Hjartarssonar með sama titil. Þeir eru eins og lím, endurtekið tema, tákn sem gæti verið tilviljun, eða vitnisburður um eitthvað óumflýjanlegt. Skáldsagan er umfangsmesta verk höfundar til þessa, og að baki útgáfunni er 7 ára meðganga. Ljóðrænn stíll Dags er skammt undan en Sporðdrekar er saga þrungin spennu, pælingum um dauðann og drauma, áföll, afskiptaleysi, vináttu og ytri og innri öfl sem móta manneskjuna. Sagan hverfist um örlagaríkan sólarhring, þann 28. október, og gerist að hluta til í miðborg Reykjavíkur. Við mæltum okkur mót við Dag á Prikinu í morgun.

Pétur Thomsen hefur verið heillaður af landslagi og áhrifum mannsins á landslag frá því að hann útskrifaðist úr framhaldsnámi í ljósmyndun í Frakklandi árið 2004. Hann hefur beint linsunni að landslagi borga, sveita og hálendis og skrásett þannig samband manns og náttúru. Síðustu ár hefur hann einbeitt sér að sínu nánasta umhverfi í Grímsnesinu og myndað þar námur, tún, skurði, víði, birki og móabörð og afraksturinn verður til sýnis á sýningunni Landám sem opnar á morgun, 8.nóvember, í Hafnarborg. Ljósmyndirnar eru teknar að næturlægi en ljósmyndarinn lýsir landið upp með flassi til að afmarka sviðið. Við það fá myndirnar á sig vissan eftir-heimsendablæ, þar sem svartur himininn gefur til kynna yfirvofandi vá. Pétur segist vonast til að verkin á sýningunni fái fólk til að velta þessum málum fyrir sér, en ekki síður vonist hann til að áhorfendur fái fagurfræðilega upplifun.

Nýverið kom út skáldsagan Tokýó-Montana hraðlestin eftir Richard Brautigan í þýðingur Þórðar Sævars Jónssonar. Þetta er safn hundrað og þrjátíu örsagna sem tengjast persónulegri reynslu höfundar þegar hann dvaldi í Japan og Montana-ríki í Bandaríkjunum. Gauti Kristmannsson rýnir í verkið í þætti dagsins.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 55 mín.
,