Fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi.
Umsjón: Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson.
Við komum við í Úkraínu og Argentínu í Heimskviðum þessa vikuna. Innrás Rússa hefur ekki aðeins lagt líf fólks í rúst, heldur líka náttúruna og auk allra morðanna sem Rússar eru sakaðir um eru þeir einnig sakaðir um vistmorð. Alveg eins og það er óljóst hvort fólkið í Úkraínu eigi nokkurn tíma eftir að jafna sig eftir voðaverk Rússa, þá gildir það sama um náttúruna. Vegna sprengjubrota, sprengjugíga, skriðdrekaumferðar og hernaðarúrgangs gæti farið svo að unnar hafi verið óafturkræfar skemmdir á jarðveginum. Á jarðvegi sem stór hluti heimsins reiðir sig á.
Argentína er enn og aftur komin á vonarvol efnahagslega en verðbólga þar er yfir eitt hundrað prósent og lífskjarakreppan, sem herjar á stóran hluta heimsbyggðarinnar, þrengir sérstaklega að Argentínumönnum. Kosið verður til þings og forseta í haust en svo gæti farið að upp úr sjóði fyrir þann tíma. Frjálshyggjumaður og piparsveinn frá Buenos aires mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum, og við rýnum í feril hans og áherslur, en hann vill meðal annars banna þungunarrof og slaka mjög á byssulöggjöf. Einna mesta athygli fær hann vegna útlitsins, en hann er með mikið og úfið hár og þykka barta, og hefur fengið viðurnefnið El Peluca, hárkollan. Og hún hylur ekki vandamálin, heldur ræðst á þau með keðjusög, eins og kollan sjálf kemst að orði.
Umsjónarmenn Heimskviða eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.