Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Í Kilju kvöldsins verður fjallað um Óla K, glæsilega bók sem Anna Dröfn Ágústdóttir hefur tekið saman um Ólaf K. Magnússon, helsta blaðaljósmyndara Íslands á gullöld prentmiðla. Brynja Hjálmsdóttir segir frá fyrstu skáldsögu sinni sem nefnist Friðsemd. Illugi Jökulsson ræðir við okkur um Rétt áðan, það er bók eftir hann sem innheldur stuttar sögur úr daglegu lífi, mestanpart úr sundlaugum og af götum borgarinnar. Eiríkur Bergmann er í viðtali um bókina Óvæntur ferðafélagi og Sigurbjörg Þrastardóttir segir frá nýjustu ljóðabók sinni, Flaumgosum, og flytur kvæði úr bókinni. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Himintungl yfir heimsins ystu brún eftir Jón Kalman Stefánsson, Kul eftir Sunnu Dís Másdóttur og Innanríkið Alexíus eftir Braga Ólafsson.