Á vit undirdjúpanna
Í þremur heimildaþáttum fyrir Útvarpsleikhús Ríkisútvarpsins er fjallað um djúpköfunaríþrótt sem nefnist fríköfun (e.freediving). Fríkafarar reyna að kafa eins djúpt og mögulegt er á einum andardrætti, án köfunartækja.
Eftir því sem fríkafarar köfuðu dýpra á sjötta og sjöunda áratugnum tóku vísindamenn eftir því að mannslíkaminn tók miklum breytingum til þess að standast þrýsting hafdjúpanna. Líkami kafarans bregst við eins og líkami höfrungs eða annarra sjávarspendýra. Það hægir gífurlega á hjartslætti kafarans (10-20 slög á mínútu), blóðflæði til útlima stöðvast og þess í stað er því beint að mikilvægum líffærum auk þess sem miltað seytir súrefnisríku blóði.
Í ljós kom að mannslíkaminn er sérhannaður til köfunnar og er ástæðunnar sennilega að leita djúpt í þróunarsögu mannsins. Þetta hafa menningarheimar víða um hnöttinn fært sér í nyt í mannkynssögunni - perlukafarar, skutulveiðimenn og stríðsmenn hafa í gegnum söguna kafað í undirjúpin til að öðlast frægð og frama, eða einfaldlega salt í grautinn.
Fjallað er um hæfileika mannsins til að ögra hafdjúpunum sem munu alltaf koma til með að eiga síðasta orðið.
Umsjón: Marteinn Sindri Jónsson.
Tónlist: Bára Gísladóttir.