Jólatónlist sem tengist sjónvarpsþáttum fyrri tíma
Í þættinum verður flutt jólatónlist tengd sjónvarpsþáttum frá 7. og 8. áratug 20. aldar. Meðal annars kemur Partridge-fjölskyldan við sögu, en þættirnir um hana voru framleiddir í Ameríku á árunum 1970-1974 og sýndir í íslenska sjónvarpinu undir heitinu „Söngelska fjölskyldan". Jólaplata með fjölskyldunni kom út árið 1972. Prúðuleikarar Jims Hensons láta líka ljós sitt skína, en jólaþáttur um þá var sýndur í bresku og bandarísku sjónvarpi árið 1979 og árið eftir íslenska sjónvarpinu. Einnig verður flutt brot úr jólaóperunni „Amahl og næturgestirnir" eftir Gian Carlo Menotti, en hún var tekin upp fyrir íslenska sjónvarpið árið 1968. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.