15:03
Píanóskáldið Robert Schumann
Fimmti þáttur
Píanóskáldið Robert Schumann

Robert Schumann (1810–1856) var eitt merkasta tónskáld nítjándu aldar. Hann er erkitýpa hins rómantíska snillings og sveiflaðist stöðugt á milli oflætis og deyfðar, ofsalegra afkasta og algjörs aðgerðaleysis. Draumur Schumanns um að verða konsertpíanisti rættist ekki, en fyrsta áratug tónsmíðaferils síns helgaði hann píanóinu alla krafta sína og voru 23 fyrst útgefnu tónverk hans samin fyrir einleikspíanó. Þar á meðal eru mörg af merkustu og þekktustu verkum sem skrifuð hafa verið fyrir hljóðfærið. Sex þeirra hljóma í þessari þáttaröð, öll samin á gríðarlega frjósömu fjögurra ára tímabili (1834–38) og þrungin persónulegum tilvísunum og táknum. Í þáttunum er ljósi varpað á þessi tengsl með brotum úr dagbókum og bréfum og sagt frá áhrifum ástarmála hins unga tónskálds á tilurð verkanna.

Umsjón: Halldór Hauksson.

Vorið 1838 höfðu þau Robert og Clara verið aðskilin í marga mánuði vegna andstöðu Friedrichs Wieck, föður Clöru og píanókennara Schumanns, við sambandi þeirra. Þrátt fyrir það var þetta gjöfull tími á tónsmíðaferli Schumanns. Í febrúar og mars samdi hann nokkra tugi stuttra píanólaga sem hann kallaði „ljúfar litlar bernskumyndir“. Þrettán þeirra birtust ári síðar á prenti sem Kinderszenen, op. 13. „Verkið hreyfir svo við mér að ég er í algjöru sæluástandi,“ sagði Clara í bréfi til Roberts. „Ég er stöðugt með lögin í huganum, þau eru svo einföld og yndisleg, svo mikið þú.“ Í þættinum hljóma líka nokkur lög úr öðru klassísku barnalagasafni eftir Schumann, Album für die Jugend, op. 68.

Lesarar með umsjónarmanni eru Jóhannes Ólafsson og Halla Harðardóttir.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 47 mín.
e
Endurflutt.
,