12:42
Þetta helst
Formaður bæjarráðs Ölfuss vill byggja 95 íbúðir í sveitarfélaginu
Þetta helst

Daglegur fréttaskýringaþáttur þar sem stór og lítil fréttamál eru matreidd á einfaldan hátt.

Formaður bæjarráðs Ölfuss, Grétar Ingi Erlendssson, á hlut í eignarhaldsfélagi sem ætlar að byggja tæplega 100 íbúðir í Ölfusi. Íbúðirnar eiga að rísa á svæði sem kallast Bakkamelur. Þetta svæði liggur við veginn á milli Þorlákshafnar og Hveragerðis. Grétar Ingi er einn af eigendum félagsins Bakkamelur ehf. sem mun standa að byggingu íbúðanna.

Viðskipti og framkvæmdir þessa félags eru nú til meðferðar hjá sveitarstjórn Ölfuss en gera þarf ráð fyrir íbúðunum í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Í sumar var gerð breyting á aðalskipulagi Ölfuss í bæjarstjórn þar sem gert er ráð fyrir því að fjöldi íbúða á svæðinu verði nærlega fjórfaldaður. Fjöldi íbúða á að fara úr 25 upp í allt að 95. Grétar Ingi sat þennan fund en vék af honum vegna tengsla vinnuveitanda hans, Einars Sigurðssonar, við málið, að sögn fulltrúa í minnihlutanum Í Ölfusi.

Grétar Ingi segir að hann hafi ekki talið þörf á því að tilgreina sérstaklega að hann væri hluthafi í félaginu. Hann hafi talið nóg að segja að hann tengdist félaginu. Fulltrúar minnihlutans í Ölfusi vissu ekki að Grétar Ingi væri hluthafi í félaginu þegar þeir greiddu atkvæði með breytingunni á aðalskipulaginu.

Rætt er við Grétar Inga, Gunnstein Ómarsson, Elliða Vignisson, Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur og Eirík Vigni Pálsson um þetta mál.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 17 mín.
,