22:10
Mannlegi þátturinn
Fjöláfalla- og tengslavandi, svefntruflanir á breytingaskeiðinu og Alexanderstækni
Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson.

Grunnþörf okkar í barnæsku eru að tengjast tilfinningaböndum við foreldra og/eða ummönnunaraðila. Þannig fáum við þörfinni fyrir kærleika, öryggi og vernd mætt. En ef það verður tengslaröskun, tengslavandi, vegna vanrækslu, misalvarlegrar, þá geta afleiðingarnar og vandinn þróast og haft áhrif á allt nærumhverfi okkar, sérstaklega ef við fáum ekki hjálp við að vinna úr þeirri reynslu. Jóhanna Jóhannesdóttir, félagsráðgjafi, MA og fjölskyldufræðingur, var hjá okkur í dag og hún fræddi okkur um þetta en hún kennir einmitt á námskeiði sem kallast Fjöláfalla- og tengslavandi hjá börnum frá 11-16 ára hjá Endurmenntun HÍ.

Breytingaskeiðið er vissulega áskorun fyrir margar konur en það er engin ástæða til þess að þjást í hljóði og reyna að þrauka. Afleiðingarnar geta verið margvíslegar og það er mjög breytilegt hvenær breytingaskeiðið hefst hjá konum og hversu langt tímabil það er. Guðrún Arnalds, heildrænn heilsuráðgjafi, hefur starfað við heildræna heilsuráðgjöf í um 30 ár, auk þess að kenna leiðir til að auka líkamsvitund og styrkja tengslin milli hugar og líkama. Guðrún kom í þáttinn í dag og sagði meðal annars frá svefntruflunum, sem eru talsvert algengar á breytingaskeiðinu, en hún býður konum einmitt upp á ókeypis námskeið til að takast á við svefntruflanir.

Svo fræddums við um nokkuð sem heitir Alexanderstækni, en með þeirri nálgun er unnið með stöðu höfuðs, háls og hryggjarsúlu, öndun, meðvitund og hreyfingu til þess að vinna gegn óæskilegri spennu í líkamanum, en hún getur haft mikil áhrif á til dæmis stoðkerfi líkamans. Harpa Guðmundsdóttir lærði Alexanderstækni í London á árunum 1996-1999 og einnig lærði hún fæðingarhjálp með þeirri tækni og hún hefur að auki aðstoðað til dæmis leikara og söngvara með þessari tækni.

Tónlist í þættinum:

Fyrir austan mána / Sextett Ólafs Gauks (Oddgeir Kristjánsson og Loftur Guðmundsson)

You’ve Lost That Lovin’ Feeling / Righteous Brothers (Barry Mann, Cynthia Weil & Phil Spector)

Lazy Sunday / Small Faces (Lane & Marriott)

Njáll og Bergþóra / Spilverk þjóðanna (Spilverk þjóðanna)

UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 50 mín.
e
Endurflutt.
,