Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Eftir að Grindavík var rýmd fóru íbúar íbúðakjarnans við Túngötu hver í sína áttina. Þrír íbúanna dvöldu í sjö mánuði í þröngri blokkaríbúð sem var illa farin af rakaskemmdum. Starfsfólk og aðstandendur segja hópinn hafa gleymst.
Jón Þröstur Jónsson hvarf sporlaust á Írlandi fyrir sex árum. Í nýjum hlaðvarpsþáttum sem unnir eru í samstarfi RÚV og írska ríkisútvarpsins koma fram nýjar upplýsingar um hvarfið og við ætlum að ræða um þær við Önnu Marsibil Clausen, ritstjóra hlaðvarpa hér hjá RÚV.
Ífigenía í Ásbrú er titill nýs leikrits sem staldrar við hjá manneskju sem flest myndu annars arka framhjá. Þórey Birgisdóttir fer með titilhlutverk verksins, sem fjallar öðrum þræði um fordóma í heilbrigðiskerfinu.
Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Valgeir Örn Ragnarsson og Bergsteinn Sigurðsson fá til sín gesti til að kryfja með sér atburði liðinnar viku og pólitískt landslag hverju sinni.
Gestir Silfursins eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Jökull Sólberg Auðunsson, meðstofnandi Trip to Japan, og Hjálmar Gíslason, forstjóri Grid.
Það er um margt að ræða. Donald Trump hefur látið hendur standa úr ermum á fyrstu viku sinni í embætti forseta Bandaríkjanna - meðal annars heldur hann kröfu sinni um yfirráð yfir Grænlandi til streitu. Þá vekur samkrull hans við helstu tæknirisa heims athygli.
Flokkur fólksins fær ekki greidda ríkisstyrki fyrr en hann hefur breytt skráningu flokksins til rétts horfs. Kallaður hefur verið eftir að hann endurgreiði styrki sem hann hefur fengið undanfarin ár - en í ljós hefur komið að fleiri flokkar hafa fengið styrki, án þess að uppfylla skilyrði til þess.
Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn í næsta mánuði. Enn sem komið er hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ein gefið kost á sér.
24 stærstu bæjarfélög landsins keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir stýra þættinum. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason. Útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson.
Í fimmta þætti eigast við lið Borgarbyggðar og Dalvíkurbyggðar.
Fyrir Borgarbyggð keppa Einar S. Valdimarsson, Heiðar Lind Hansson og Hjördís H. Hjartardóttir og lið Dalvíkurbyggðar skipa Elín B. Unnarsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Magni Óskarsson.
Hljómskálinn snýr aftur, fullur langt út úr dyrum af nýjum viðtölum, nýjum andlitum og nýrri íslenskri tónlist. Sigtryggur Baldursson og Una Torfadóttir yfirheyra íslenskt tónlistarfólk og greiningardeildin kryfur bransann til mergjar. Framleiðsla: Stjörnusambandsstöðin.
Sumt tónlistarfólk getur ýmislegt annað en sungið og spilað á hljóðfæri. Allskyns listafólk finnur sköpunarkraftinum farveg gegnum hinar ýmsu listgreinar og fremur jafnvel galdur. Fjöllistafólkið Klemens Hannigan og Ásta Fanney fremja einn slíkan fyrir okkur.
Umræðuþáttur í beinni útsendingu þar sem fólkið í landinu varpar fram spurningum og stendur fyrir máli sínu. Á Torginu er talað um málefnin sem rædd eru af kappi á kaffistofum landsins. Umsjón: Sigríður Halldórsdóttir og Baldvin Þór Bergsson. Stjórn upptöku: Þór Freysson.
Að undanförnu hafa margar fréttir verið sagðar af viðbúnaði á Íslandi tengdum ýmiss konar hamförum. En hvernig er staðan? Á Torginu var rætt um þjóðaröryggi og áfallaþol. Hvar stöndum við okkur vel og hvar þurfum við að gefa í? Og gefa fjölmiðlar rétta mynd af stöðunni eða er sífellt verið að teikna upp einhverja svarta mynd?
Gestir Torgsins voru þau:
Runólfur Þórólfsson, almannavörnum
Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður og ritstjóri Kveiks
Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði.
Sóley Kaldal, áhættustýringar- og öryggisverkfræðingur
Skúli Bragi Geirdal sviðsstjóri Netöryggismiðstöðvar og sérfræðingur í miðlalæsi hjá fjölmiðlanefnd
Þóra Sigríður Einarsdóttir, sálfræðingur, með sérhæfingu í áföllum
Önnur þáttaröð þessara dönsku gamanþátta. Lífið í sinfóníuhljómsveit hjá stórri danskri menningarstofnun er ekki alltaf dans á rósum. Hljómsveitarstjórinn Jeppe forðast ágreining eins og heitan eldinn, en það reynist oft erfitt þar sem sérvitri og ósveigjanlegi klarinettuleikarinn Bo lendir sífellt í árekstrum við stjórnendur og annað tónlistarfólk. Aðalhlutverk: Frederik Cilius Jørgensen, Rasmus Bruun og Neel Rønholt. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Nýjustu fréttir og íþróttir kvöldsins. Alla mánudaga til fimmtudaga.
Veðurfréttir
Breskir gamanþættir um einfarann John Taylor sem gefur út þrautabækur undir dulnefninu „Ludwig.“ Þegar eineggja tvíburabróðir hans, James, hverfur sporlaust heldur John á lögreglustöðina til að grennslast fyrir um hann. Þar er bræðrunum ruglað saman og John er skyndilega kominn í starf bróður síns sem rannsóknarlögreglustjóri Cambridge. Aðalhlutverk: David Mitchell, Anna Maxwell Martin og Dipo Ola. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Þýskir dramaþættir frá 2022. Christine er dansari í Friedrichstadt-Palast-leikhúsinu í Austur-Berlín árið 1988. Þegar hún kemst óvænt að því að hún á tvíburasystur frá Vestur-Þýskalandi vakna ýmsar spurningar. Í von um að komast að uppruna sínum ákveða þær að skiptast á hlutverkum. Aðalhlutverk: Luise Befort, Svenja Jung og Anja Kling.