Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Formenn Leigendasamtakanna og VR gagnrýna skammtímaleigu á húsnæði og segja það hafa eyðileggjandi áhrif á húsnæðismarkaðinn. Í vikunni var sagt frá fjölbýlishúsi í Bríetartúni þar sem 2/3 íbúðanna eru í eigu félags sem leigir þær ferðamönnum. Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður Umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkur, segir forsendubrest hafa orðið árið 2018 þegar kvöðum um gististarfsemi í atvinnurekstri var aflétt í reglugerð. Hún ræddi stöðuna ásamt Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.
Ástar- og spennusögur sem komið hafa út undir merkjum Rauðu seríunnar hafa nú sungið sitt síðasta, því hjónin sem hafa gefið bækurnar út hartnær 40 ár eru komin á aldur og ætla að segja þetta gott. Kastljós hitti hjónin þar sem þau voru að dreifa bókum í hillur verslana í síðasta sinn.
Menningarfréttir voru á sínum stað eins og alltaf á fimmtudögum. Meðal annars var fjallað um nýja bók um verk Eggerts Péturssonar.