Íslensk heimildarþáttaröð í sex hlutum þar sem skyggnst er inn í heim tvíbura og sagðar persónulegar sögur. Í þáttunum er fylgst með því líffræðilega undri sem á sér stað þegar tvíburar verða til og þeim sterku tengslum sem virðast fylgja flestum tvíburum út lífið. Hvaða helstu áskoranir bíða tvíbura, búa þeir yfir meiri samkennd en aðrir, hversu samtaka í lífinu eru þeir og hugsa þeir jafnvel eins? Umsjón og framleiðsla: Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Eiríkur Ingi Böðvarðsson.
Hrefna Erna og Eyjólfur Aðalsteinn deila átakanlegri sögu. Þau misstu annan tvíburadrenginn sinn á meðgöngu. Hrefnu fannst erfitt að halda meðgöngunni áfram eftir áfallið og enn erfiðara að fæða eitt lifandi barn og annað andvana. Einnig er skyggnst inn í líf hjóna sem ræða opinskátt um álagið sem fylgir því að eignast tvö börn í einu. Andvökunætur, veikindi, stöðugt áreiti og þörf fyrir umönnun getur tekið sinn toll og sumir foreldrar örmagnast.