Dr. Gunni og Felix Bergsson stjórna spurningakeppni hljómsveita. Í þáttunum takast íslenskar hljómsveitir á í æsandi spurningaleik, þar sem gáfur og viska, ásamt snerpu, atgervi og heppni ráða niðurstöðunni - já og tónlistarhæfileikar. Meðal þeirra hljómsveita sem keppa eru Buff, Ljótu hálfvitarnir, Jeff Who?, Baggalútur, Hvanndalsbræður, múm, Sigur Rós og Áhöfnin á Halastjörnunni. Þættirnir voru frumsýndir á RÚV sumarið 2009. Stjórn upptöku: Helgi Jóhannesson.
Í þriðja þætti Popppunkts mæta hinir Ljótu hálfvitar frá Norðurlandi og borgarbörnin í Sprengjuhöllinni. Báðar sveitirnar eru þekktar fyrir að hafa innanborðs bæði mikil gáfumenni og ærslabelgi. Liðsmenn Ljótu hálfvitanna hafa þegar getið sér gott orð í spurningaþættinum Útsvari, en Sprengjuhöllin var með strangt æfingarprógramm fyrir keppnina. Fyrir hönd hálfvita keppa Eddi, Gummi og Ármann en Bergur Ebbi, Snorri og Atli sprengja fyrir höll.
