Erroll Garner var einn af helstu píanómeisturum djassögunnar. Hann var fæddur og uppalinn í djasspíanóborginni Pittsburg, þar sem hann átti vini á borð við Billy Strayhorn og Ahmad Jamal. Þar kom hann fyrst fram í útvarpi, sjö ára. Þrettán ára var hann orðinn atvinnutónlistarmaður og 1944 flutti hann til New York þar sem hann lék m.a. með Slam Stewart á 52. stræti og hljóðritaði fyrstu plötur sínar. Árið eftir hélt hann til Kaliforníu og stofnaði tríó sem frægt var og hljóðritaði Charlie Parker hinar frægu „Cool Blues" upptökur með Garner tríóinu fyrir Dial. Garner hljóðritaði einnig fyrir Savoy, bæði sóló og tríó verk, m.a. metsölu skífu sína Lauru, þar sem áhrif frá Debussy og Ravel voru augljós. Garner lærði aldrei að lesa nótur en hann sat alltaf og hlustaði, er eldri systkini hans voru í píanótímum og þurfti ekki að heyra lag nema einu sinni til að kunna það og geta leikið í öllum tóntegndum. Fats Waller og Art Tatum voru helstu áhrifavaldar, en Garner mótaði fljótt hinn magnþrungna stíl sinn, sem stóð nær sveiflutímanum en boppinu. Í flestum viðurnefnum frá þessum tíma kom orðið happy fyrir, sem lýsir honum og tónlist hans vel.
Frumflutt
29. júní 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Erroll Garner
Vernharður Linnet fjallar um Erroll Garner, einn af helstu píanómeisturum sögunnar, í tveimur þáttum.