06:50
Morgunútvarpið
13. des - Kjaraviðræður, ójöfnuður og loðnuveiði
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál. Umsjón: Hafdís Helga Helgadóttir og Ingvar Þór Björnsson.

Loðnuveiði er hafin norður af landinu en töluvert af loðnu var þar að sjá um helgina. Við hringdum í áhöfnina á Beiti NK sem hefur verið á veiðum austan við Kolbeinseyjarhrygg.

Um 2000 íslenskir minkar verða hryggjarstykkið í að koma danskri minkarækt aftur á koppinn eftir massaslátrun dýranna þar í landi í kjölfar Covid faraldursins. Við ræddum við Einar E. Einarsson formann loðdýrabænda um málið.

Leiðist börnunum okkar einhverntímann? Í gær birtist grein á Vísi þar sem samasemmerki er dregið á milli aukinnar vanlíðunar barna og mikillar samfélagsmiðlanotkunar þeirra, til dæmis Youtube. Við ræddum málið við tvo höfunda greinarinnar, þau Daðey Albertsdóttur sálfræðing hjá Geðheilsumiðstöð barna og Skúla Braga Geirdal, verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd.

Samtök atvinnulífsins og VR, Landssamband íslenskra verzlunarmanna og samflot tækni- og iðnmanna, skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gær. Með gerð kjarasamninganna sem voru undirritaðir í gær er búið að semja fyrir hönd flestra aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Efling á þó enn eftir að semja og við ræddum við Sólveigu Önnu Jónsdóttur.

Við ræddum einnig við Claudiu Wilson, lögmann Hussein Hussein og fjölskyldu hans en héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að brottvísun fjölskyldunnar í nóvember væri ólögleg.

Kjarninn fjallaði um það í vikunni að ríkasta 0,1 prósentið á Íslandi hafi ekki tekið til sín stærri hluta af tekjukökunni síðan 2007. Við ræddum þróun í eigna- og tekjuskiptingu við Þórólf Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Í lok þáttar kemur svo okkar allra besta vísindanörd, Sævar Helgi Bragason, og eys úr skálum visku sinnar.

Var aðgengilegt til 13. desember 2023.
Lengd: 2 klst. 10 mín.
,