Fjórir útvarpsþættir um sagnalist á Norðurlöndum í umsjón Þrastar Haraldssonar.
Börnin og krafa þeirra um sögur er einn helsti hvati þess að mannkynið hóf að segja sögur, hélt því áfram og spinnur eflaust söguþráðinn áfram allt á enda veraldar. Sagnalistin er elsta listgrein mannkyns og lifir enn góðu lífi þrátt fyrir háan aldur, tækniframfarir og afþreyingariðnað.
Ingi Hans Jónsson sagnamaður í Grundarfirði rekur söguna allt aftur í samfélög veiðimanna þar sem karlarnir komu heim af veiðum á kvöldin, settust við eldinn og sögðu sögur af viðburðum dagsins. Þarna fór fram fræðsla, upplýsing og skemmtun. Svo fóru menn að slá í hitt og þetta og syngja með, hljóðfærin urðu til og upp úr því var farið að skipa í hlutverk í leikritinu. Og svo var farið að dansa. Þannig er það sagnaþörfin sem er í raun undirrót allra lista.
Í þáttunum er rætt við íslenska og erlenda sagnaþuli og sögukonur, kennara og leikara, fræðimenn og uppistandara. Útkoman úr þessu birtist í fjórum útvarpsþáttum.
Í þriðja þætti er spurt hvort hægt sé að kenna sagnalist og rætt um höfundarrétt og eignarhald á sögum.
Viðmælendur: Heidi Dahlsveen háskólakennari í sagnalist í Osló og Mariane Josefsen sögukona í Kaupmannahöfn.
Umsjón: Þröstur Haraldsson.