Þáttur frá desember 1969 þar sem Elín Pálmadóttir ræðir við Aðalbjörgu Sigurðardóttur. Aðalbjörg var afkastamikill rithöfundur, skrifaði ótal greinar og flutti fjölda fyrirlestra í útvarpi og víðsvegar um landið. Einnig sótti hún aðra fyrirlestra til útlanda, til að mynda á vegum Khrisnamurtis, sem var indverskur fræðimaður í guðspeki. Hún skrifaði margar greinar sem birtust í helstu tímaritum þessa tíma. Hún sat í fyrstu stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar, stofnaði einnig mæðrastyrksnefnd og beitti sér mikið í þágu barnaverndar. Hún tók einnig þátt í stjórnmálum og sat tvö kjörtímabil sem varafulltrúi í bæjarstjórn. Auk þess var hún skólanefndarformaður barnaskólanna í Reykjavík og hafði því mikið að segja í fræðslumálum borgarinnar. Hún aðhylltist aðferðir Maria Montessori og vildi að íslenska menntakerfið myndi skoða og taka upp aðferðir hennar en Aðalbjörg er talin vera sú fyrsta sem nefndi hugmyndir Montessori hér á landi. Stjórnandi upptöku: Eiður Guðnason.