Þáttaröð í tíu hlutum um íslenskar kvikmyndir allt frá fyrri hluta 20. aldar til samtímans. Í hverjum þætti er ákveðið tímabil tekið fyrir, fjallað um kvikmyndir þess tímabils og sýndir valdir hlutar úr þeim. Rætt er við á annað hundrað kvikmyndagerðarmenn, leikara og kvikmyndasérfræðinga um verkin og margvíslega fleti íslenskrar kvikmyndagerðar. Leikstjóri: Ásgrímur Sverrisson.
Ný kynslóð kvikmyndaleikstjóra kveður sér hljóðs undir lok fyrsta áratugarins og í upphafi annars og margir þeirra vekja mikla athygli þegar á líður. Vaktaserían og eftirmáli hennar, kvikmyndin Bjarnfreðarson, ná geysilegum vinsældum og Friðrik Þór gerir upp ferilinn í afar persónulegri mynd, Mömmu Gógó, sem setur íslenskar kvikmyndir í sögulega vídd. Einnig er fjallað um einkenni og persónur íslenskra kvikmynda og samband íslenskra áhorfenda við þær og lykilmyndirnar eru Eldfjall, Sveitabrúðkaup, Mamma Gógó, Borgríki og Bjarnfreðarson.