Nefnd skipuð af fyrrverandi heilbrigðisráðherra birti í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum svokallaða Grænbók, þar sem skoðuð er staðan í málum tengdum ADHD á Íslandi. Skoðaðir eru til dæmis langir biðlistar eftir greiningu og algengi lyfjameðferðar. Mat nefndarinnar er að gæðum sé ábótavant, bæði þegar kemur að greiningum og lyfjameðferð. Formaður ADHD samtakanna sagði í síðustu viku að þær ályktanir sem fram koma í Grænbókinni muni valda mikilli ólgu hjá félögum samtakanna og hjá þeim sem bíða greiningar og að þar sé ýmislegt sem þurfi að skoða betur. Hrannar B. Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, var hjá okkur í dag og fór með okkur yfir niðurstöður Grænbókarinnar og tók undir áhyggjur formannsins, að ef farið yrði eftir þeim ályktunum sem þar koma fram þá gæti það verið skref aftur á bak, eða í það minnsta gæti það kallað á stöðnun í málefnum ADHD á Íslandi.
Helga Arnardóttir kom svo til okkar og fór yfir það sem hún hefur fjallað um á Heilsuvaktinni á liðnu ári. Þar kennir margra grasa, t.d. blóðsykur, gjörunnar matvörur, ofþyngd barna, heilbrigði þarmaflórunnar, öndun til að róa taugakerfið, heilaörvunarmeðferð við þunglyndi, mikilvægi þess að fara í krabbameinsskimun, reynslusögur og margt fleira. Við rifjuðm upp það helsta frá Heilsuvaktinni árið 2024 með Helgu í dag og hún fór aðeins yfir það hvað yrði til umfjöllunar á nýju ári og auglýsti eftir hugmyndum og ábendingum frá hlustendum í því tilliti. Þær er hægt að senda á netfang þáttarins: [email protected]
Tónlist í þættinum:
Hvar er tunglið? / Kristjana Stefánsdóttir (Sigurður Flosason, texti Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)
Godess / Laufey (Laufey Lin Jónsdóttir)
Why can’t you behave? / Ella Fitzgerald (Cole Porter)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON