Vinalegir þættir fyrir þau allra yngstu. Molang er búttaður lítill „kanínugrís“. Hún er sérvitur, glaðvær og áhugasöm. Besti vinur hennar er litli hænuunginn Piu Piu. Molang er kóresk teiknimyndapersóna og afskaplega vinsæl í heimalandinu.
Þegar afi ykkar er búin að þjálfa ykkur sem skrímslaveiðimenn, þá er ekkert annað í stöðunni en að veiða öll skrímslin! Það er þó eitt vandamál, krakkarnir elska skrímslin og vilja helst bara bjarga þeim. Það geta þau gert á meðan afi blundar, eða hvað?
Gamansamir þættir um strútapabbann Edda og áttburana hans. Eddi strútapabbi er fullkomnunarsinni og reynir að gera allt sem í hans valdi stendur til að vernda áttburana sína. Hann á fullt í fangi með það, enda eru ævintýrin hjá stórri fjölskyldu mörg og ímyndunaraflið mikið.
Eddi strútapabbi er dauðhræddur um að ketilbjallan sem dóttir sín notar við lyftingaæfingar muni meiða hana og reynir að taka hana í burtu áður en það verður of seint!
Teiknimyndaþættir um Lóu sem er 12 ára og býr með mömmu sinni í stórborg. Lóu finnst hún ekki lengur vera barn og ekki alveg vera unglingur ennþá og reynir að takast á við allar þær tilfinningar sem vakna þegar unglingsárin eru að hefjast.
Kortó, Mýsla og Eik eru álveðin að sigra Hvalabikarkeppnina, drónaflugkeppni sem leiða á í ljós hver verður arftaki vistfræðisnillingsins Hvals Hvíta og þar af leiðandi fá aðgang að nýjustu vistvísindunum til geta forðað því að eyjan þeirra hverfi í hafið.
Talsett teiknimynd frá 2019. Systurnar Anna og Elsa halda í ævintýralegan leiðangur ásamt Kristjáni, hreindýrinu Sveini og snjókarlinum Ólafi í leit að uppruna töframáttar Elsu. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta teiknimyndin.
Hljómskálinn snýr aftur, fullur langt út úr dyrum af nýjum viðtölum, nýjum andlitum og nýrri íslenskri tónlist. Sigtryggur Baldursson og Una Torfadóttir yfirheyra íslenskt tónlistarfólk og greiningardeildin kryfur bransann til mergjar. Framleiðsla: Stjörnusambandsstöðin.
Við ræðum við tónlistarfólk sem vill alltaf meira. Rokktónlist þar sem allar nóturnar eru spilaðar, hlaðnar útsetningar, risakórar og miklar sviðsetningar. Loks flytja Bríet og Sinfóníuhljómsveit Íslands nýtt tónverk þar sem meira verður enn meira.
Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson fagna um þessar mundir 10 ára samstarfsafmæli sem Hraðfréttamennirnir og halda upp á tímamótin með nýrri þáttaröð af Hraðfréttum. Sem fyrr láta þeir félagar sér ekkert mannlegt óviðkomandi og flest verður þeim að skemmtilegu fréttaefni.
Íslenskir og erlendir jötnar reyndu með sér í æsispennandi keppni, þegar Aflraunamótið Víkingurinn var haldið í í sumar. Sterkustu menn kepptu þar um víkingahjálminn í þrítugasta og annað sinn. Nú var keppt á Hvalfjarðarströnd, í Grundarfirði, Ólafsvík og Stykkishólmi, þar sem einnig var litast um í lífi, starfi, listum og sögu heimamanna. Umsjón: Samúel Örn Erlingsson. Dagskrárgerð: Óskar Þór Nikulásson.
Fjallað er um Íslendinga sem settu svip sinn á íslenskt samfélag um sína daga með margvíslegum hætti. Þættirnir spegla jafnframt sögu þjóðarinnar og samtíð á ýmsum tímum, menningu, listir, stjórnmál og fleira. Þeir eru byggðir á efni úr safni RÚV á nærfellt hálfrar aldar tímabili. Dagskrárgerð: Andrés Indriðason.
Í menningar- og listasögu þjóðarinnar skipar Jóhannes S. Kjarval sérstakan sess. Hann málaði ævintýrin sem leynast í landslaginu og kenndi þjóðinni að sjá náttúru landsins á nýjan hátt. Hann dró líka upp myndir af fólki með einstæðum hætti og málaði verk af táknrænum toga. Dagskrárefnið er úr safni Sjónvarpsins.
Umsjón og dagskrárgerð: Andrés Indriðason.
Tónlistar- og skemmtiþættir um strauma og stefnur í tónlist og tíðaranda hérlendis og erlendis á síðastliðnum áratugum Hin og þessi tímabil í popp- og dægurmenningarsögunni í tónum og tali. Umsjón: Björg Magnúsdóttir og Freyr Eyjólfsson. Tónlistarstjórn: Guðmundur Óskar Guðmundsson. Stjórn upptöku: Salóme Þorkelsdóttir.
Í þætti kvöldsins er fjallað um áttuna, árin 1980-1990.
Fjórir krakkar eiga að vinna skólaverkefni um víkingatímabilið á Þjóðminjasafninu en leysa í staðinn ævafornan víking úr álögum. Krakkarnir þurfa að leysa sérstakar víkingaþrautir til að hjálpa víkingnum að komast til Valhallar - þangað sem fallnar víkingahetjur fara eftir að hafa dáið í bardaga.
Selma, Kalli, Jói og Ella eru mætt á Þjóðminjasafnið til að leysa skólaverkefni. Þjóðhildur safnvörður tekur vel á móti þeim og vísar þeim inn á Hofsstaðasýninguna.
Þegar ævafornt armband dettur í gólfið birtist eldgamall víkingur sem hefur verið í álögum í margar aldir. Krakkarnir sogast inn í spennandi og dularfulla atburðarrás þar sem þau þurfa að hjálpa víkingnum að komast aftur heim.
Fjórir krakkar í rokkhljómsveit æfa þekkt íslenskt rokklag og semja eigið lag. Í leiðinni fræðumst við um hljóðfærin í hljómsveitinni og rokktónlistarsöguna.
Nýja bílskúrshljómsveitin okkar, Gulu Kettirnir hefjast handa við að semja sitt eigið lag. Við lærum nokkur vel valin orð sem notuð eru í tónlistarheiminum. Hljómsveitarmeðlimir: Aldís María Sigursveinsdóttir, Fatíma Rós Joof, Hilmir Þór Snæland Hafsteinsson og Sigurður Ingvar Þórisson. Tónlistarstjóri: Sigurður Ingi Einarsson.
Í þessum þáttum rýnir Ari inn í heim leikhússins og fylgist með uppsetningu á sýningunni Fíasól sem hefur farið vel af stað í Borgarleikhúsinu. Lifandi þættir fyrir alla fjölskylduna! Komiði með og sjáið hvernig söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp verður til.
Í þessum þætti kynnumst við ungu og efnilegu leikurunum í sýningunni Fíasól.
Valin myndskeið úr Landanum þar sem áhugaverðir staðir eru skoðaðir og merkilegir Íslendingar heimsóttir. Dagskrárgerð: Gísli Einarsson og Karl Sigtryggsson.
Ullin sem tekin er af kindunum í Lækjartúni í Ásahreppi fer ekki langt því í næsta húsi við fjárhúsin er lítil spunaverksmiðja, Uppspuni. „Við spinnum ull í band í ýmsum þykktum, bara frá a til ö. Við tökum ullina inn beint af kindunum, þvoum hana, tætum, tökum ofan af, kembum, drögum, spinnum og setjum í umbúðir," segir Hulda Brynjólfsdóttir, eigandi Uppspuna. „Við spinnum alla haustull frá okkur og kaupum líka ull af nágrannabæjum. Síðan kemur fólk með sína eigin ull og af því þetta er svona smátt í sniðum þá getum við fylgt hverju reifi eftir og þú getur komið með reifi af einni kind og fengið band úr henni. Það er einstök tilfinning að spinna og prjóna úr ull af sinni uppáhaldskind," segir Hulda.
Ómissandi endapunktur sjónvarpsársins. Einvalalið leikara og skemmtikrafta rýnir í fréttir, viðburði og uppákomur ársins. Handritshöfundar eru Friðgeir Einarsson, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal, Ólafur Ásgeirsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Leikstjóri: María Reyndal.
Dönsk gamanmynd frá 2022. Systurnar Katrine og Karoline eru eins ólíkar og hugsast getur. Karoline býr með atvinnulausum kærasta og nær ekki endum saman á meðan Katrine á allt sem hana dreymir um – nema barn. Þegar Karoline verður óvart ólétt fær Katrine þá hugmynd að greiða upp skuldir systur sinnar í skiptum fyrir ófætt barn hennar. Í fyrstu þykir systrunum þetta frábært fyrirkomulag en ekkert fer eins og áætlað var. Leikstjóri: Anders W. Berthelsen. Aðalhlutverk: Sofie Torp, Roberta Hilarius Reichhardt, Esben Smed og Martin Høgsted.
Sannsöguleg kvikmynd frá 2016 í leikstjórn Peters Berg. Árið 2010 sprakk olíuborpallurinn Deepwater Horizon sem staðsettur var á bandarísku hafsvæði í Mexíkóflóa. Myndin fjallar um starfsfólk borpallsins í aðdraganda sprengingarinnar sem olli einu mesta mengunarslysi í bandarískri sögu. Aðalhlutverk: Mark Wahlberg, Kurt Russell og Douglas M. Griffin. Myndin er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Iceland's iconic end-of-year comedy show. Some of the country's most talented comedy writers and actors delve into the year's biggest events. This year's writers are: Friðgeir Einarsson, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal, Ólafur Ásgeirsson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir and Sveinn Ólafur Gunnarsson. Director: María Reyndal.