20:05
Kiljan
Kiljan 16. október 2024
Kiljan

Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.

Í Kilju vikunnar hittum við Maó Alheimsdóttur. Hún er pólsk, búsett á Íslandi og starfar sem fjallaleiðsögumaður. Hún hefur skrifað skáldsögu sem nefnist því þjóðlega nafni Veðurfregnir og jarðarfarir – Maó skrifar bókina á íslensku. Við komust líka að því hvers vegna hún notar þetta sérstaka nafn. Steinunn Sigurðardóttir ræðir við okkur um Skálds sögu - en þar fer hún yfir æviferil sinn og feril sem rithöfundur í gegnum bækurnar sem hún hefur skrifað og staði þar sem hún hefur unnið að skriftum. Bjarni Guðmundsson hefur lifað og starfað á Hvanneyri í sex áratugi og hefur skrifað frábærar bækur um búskaparhætti og breytingar sem urðu í sveitum á síðustu öld. Við förum á Hvanneyri og spjöllum við Bjarna um nýjustu bók hans sem nefnist Búverk og breyttir tímar. Liðin eru hundrað ár frá því Bréf til Láru, ein áhrifamesta og umdeildasta bók Íslandssögunnar, kom út. Soffía Auður Birgisdóttir hefur annast nýja útgáfu á Bréfi til Láru og segir okkur undan og ofan af bókinni og höfundinum, Þórbergi Þórðarsyni. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um þrjár bækur: Þegar sannleikurinn sefur eftir Nönnu Rögnvaldardóttur, Jarðljós eftir Gerði Kristnýju og Dagbók frá Gaza eftir Atef Abu Saif.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 44 mín.
Dagskrárliður er textaður.
,