Flýtileiðir

26. janúar 2015

ruv.is / Um RÚV / Afnotadeild

Afnotagjöldin lögð niður

Samkvæmt lögum nr. 6/2007 var ákveðið að leggja afnotagjald Ríkisútvarpsins niður frá og með 1. janúar 2009. Í stað afnotagjaldsins komi sérstakt gjald sem Alþingi ákveður.

Alþingi hefur ákveðið að útvarpsgjaldið verði 17.200 kr. og verði einn gjalddagi 1. ágúst ár hvert. Gjaldið greiða allir þeir sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra en það eru allir sem eru eldri en 16 ára og yngri en 70 ára og eru yfir skattleysismörkum. Einnig allir lögaðilar.

Öllum sem skulda enn afnotagjald hefur verið sent bréf og greiðsluseðill, þar sem skorað er á viðkomandi að greiða skuld sína eða semja um hana við starfsmenn afnotadeildar fyrir 15. mars 2009 en eftir það verður krafan send til innheimtu hjá lögfræðingum sem hefur í för með sér aukinn kostnað.

 

Hulduherinn hættir

Þáttur fluttur á Rás eitt kl. 13:00 11. Janúar, 2009
Umsjónarmaður: Bergljót Baldursdóttir
Hljóðvinnu annaðist: Jan Murtomaa

Þátturinn fjallar um afnotadeild Ríkisútvarpsins en afnotagjöldin voru lögð af um áramótin. Starfsfólk deildarinnar hefur starfað þar í langan tíma og lent í ýmsu á löngum ferli. Það hefur t.d. fengið líflátshótanir, verið ógnað og nánast daglega skammað fyrir allt sem varðar stofnunina. Í þættinum er rætt við, Ríkey Beck, Bjarna P Magnússon, innheimtustjóra, Eið Sigurðsson, Sigríði Ingþórsdóttur, Eyrúnu Guðmundsdóttur og Karlottu Laufeyju Halldórsdóttur. Einnig er rætt við Theodór Georgsson, fyrrverandi innheimtustjóra sem starfaði hjá stofnuninni í 16 ár.

Í þættinum er farið með Árna Guðmundssyni í síðustu tækjaleit sem farin var á vegum stofnunarinnar. Sagt er frá umfjöllun um afnotagjöldin og afnotadeildina í dagblöðum og í fréttum Ríkisútvarpsins. Í því sambandi heyrist í fréttamönnunum Gissuri Sigurðssyni, Sigríði Hagalín Björnsdóttur og Áslaugu Skúladóttur. Einnig í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra.

Lesarar í þættinum eru: Viðar Eggertsson, Ásrún Brynja Ingvarsdóttir, Hallgrímur Indriðason, Lísa Pálsdóttir, Jón Guðni Kristjánsson og Þorvaldur Friðriksson. 

Hlusta á þáttinn í vafra

Opna þáttinn í iTunes