Hugmyndadagar RÚV

Hugmyndadagar

 

Ert þú með hugmynd eða tillögu að dagskrárefni? 

 

Hugmyndadagar RÚV verða haldnir í fyrsta sinn í október 2017. Þar geta hugmyndasmiðir, höfundar, framleiðendur og aðrir kynnt hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárstjórum RÚV. Vonast er til þess að sumar þessara hugmynda endi fyrir augum og eyrum landsmanna í miðlum RÚV. Markmiðið er að auka enn fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja samtalið á milli RÚV og sjálfstæðra framleiðenda. 

Auglýst er eftir tillögum að dagskrárefni af öllu tagi í alla miðla RÚV; í sjónvarp, útvarp og á vef. Núna er sérstaklega kallað eftir tillögum að dagskrárefni fyrir 15-29 ára, m.a. leiknu efni, efni sem framleitt er utan höfuðborgarsvæðisins, útvarpsleikritum og hlaðvarpsefni. Þeir sem vilja koma hugmyndum og tillögum á framfæri geta sent inn efni frá 25. ágúst til 15. september. Unnið verður úr innsendum hugmyndum og völdum hópi boðið að kynna hugmyndir sínar fyrir dagskrárstjórum á Hugmyndadögum 10.-11. október. Framleiðslufyrirkomulag og annað er opið til frekari umræðu en í dag framleiðir RÚV hluta af efni sínu sjálft en vinnur annað í samstarfi við aðra. 

Fyrir samfélagið er ein af fimm megináherslum í nýrri stefnu RÚV sem kynnt var síðastliðið vor. Í henni felst loforð um að virkja og hvetja samfélagið og stuðla að framþróun fjölmiðlunar á Íslandi, með auknu samstarfi og samtali við samfélagið. RÚV vill opna aðstöðu fyrir sjálfstæða framleiðendur, með opnari hugmyndaþróun og áherslu á viðburði sem sameina þjóðina alla. Það er með þetta nýja stefnumið að leiðarljósi sem Hugmyndadagar eru haldnir í fyrsta sinn á RÚV í október. 

Tekið er við innsendum hugmyndum dagana 25. ágúst – 15. september 2017. Hugmyndasmiðir þeirra hugmynda sem verða fyrir valinu fá þá tækifæri til að þróa hugmynd sínar frekar og undirbúa kynningu á henni sem fer fram á Hugmyndadögum dagana 10.-11. október 2017 í Efstaleiti. 

· Hugmyndir skulu berast RÚV í gegnum vefgáttina hér á síðunni 

· Netfang hugmyndadaga er hugmyndadagar@ruv.is 

Stjörnumerkta reiti* verður að fyllla út.

Hægt er að senda frekari upplýsingar um verkefnið, hljóðbút, myndbút eða hvað annað sem þú/þið teljið að komi hugmynd ykkar frekar á framfæri hér með viðhengi.

Athugið: Viðhengi getur ekki verið stærra en 20 MB. Ef viðhengi er stærra þá vinsamlegast sendið það á netfangið hugmyndadagar@ruv.is t.d. með vimeo eða wetransfer