Sjálfstæðisflokkurinn er ekki inni í myndinni við myndun næstu ríkisstjórnar, að mati Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata. Mikilvægt sé að fulltrúar flokkanna á Alþingi fái tóm til að ræða saman áður en boðað verður til kosninga.
„Það er mikilvægt að gefast ekki upp strax. Í fimm flokka viðræðum fyrir áramót vorum við komin með frábæran stjórnarsáttmála. Það er allt í lagi að skoða nokkra hluti áður en fólk gefst upp,“ segir Birgitta um næstu skref nú þegar Björt framtíð hefur slitið stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.
Hún segir að ef takist að mynda stjórn án kosninga, þá yrðu í henni fjórir til fimm flokkar. „Ég held að það sé full ástæða til að ræða við fólk og heyra í því hljóðið og sjá hvort það er einhver leið. Ef það gengur ekki, þá það. Við erum alveg tilbúin í kosningar, það snýst ekki um það, heldur fyrst og fremst um þá pólitísku kreppu sem er hérna og þá staðreynd að það á að fara keyra næstu fjárlög í gegn á sjálfstýringu, sem er mjög vont.“
Þú talar um að það sé eðlilegast að flokkar ræði saman áður en boðað verður til kosninga. Þarna er sama fólk og sömu áherslur og áður. Af hverju ættu menn frekar að ná saman núna þegar það tókst ekki fyrr en eftir tvo mánuði síðast?
„Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkur er algjörlega út úr myndinni og hefði að sjálfsögðu átt að vera það síðast, miðað við allt sem á undan er gengið. Mig minnir að Benedikt Jóhannesson hafi á sínum tíma rætt um að vera tilbúinn að styðja minnihlutastjórn. Það er allt í lagi að skoða það núna,“ segir Birgitta.
Öll atburðarás í tengslum við veitingu uppreistar æru er til háborinnar skammar að mati Birgittu. Hún átti sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis en sagði sig úr henni og lýsti yfir vantrausti á formann nefndarinnar, Brynjar Níelsson. Hún segir að vantraustið hafi verið verðskuldað. „Ef fólk hefur horft á Kastljós í gær og var í einhverjum vafa, þá er það örugglega ekki í neinum vafa lengur. Það er lygilegt hvernig fólk kemst hjá því að axla ábyrgð hér í íslensku samfélagi. Það á sérstaklega við um ráðherra Sjálfstæðisflokksins.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.
Aukafréttatími verður í sjónvarpi klukkan 12. Hann verður textaður og rittúlkaður á síðu 888 í textavarpi.