Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra vill ekki gagnrýna oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir að gera úthlutun lóðar undir mosku að kosningamáli. Mikilvægt sé að ræða opinskátt og fordómalaust um þann vanda sem geti fylgt ólíkum skoðunum í fjölmenningarsamfélagi.

Innflytjendamál heyra undir Eyglóu Harðardóttur félagsmálaráðherra.  Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir leiðtogi Framsóknarmanna í Reykjavík hefur sætt gagnrýni fyrir að gera að kosningamáli úthlutun lóðar undir mosku til félags múslima á Íslandi.  

Eygló segir að stefna Framsóknarflokksins sé skýr og að múslimar eigi að hafa sama rétt til að reisa sér bænahús. „Ég tel að ef trúfélög vilja byggja bænhús þá eiga þau að geta gert það og það á ekki að mismuna eftir trúfélögum, menn geta síðan haft skoðun á því hvort að það sé rétt að úthluta trúfélögum fríum lóðum og svo er það kannski bara hluti af skipulagsferlinu að ákveða hvar sú lóð eigi að vera.“

Eygló vildi ekki svara því hvort hún væri sammála tillögu Sveinbjargar um að draga til baka úthlutun lóðar undir moskuna.  „Þegar maður er í miðri kosningabaráttu er ýmislegt látið flakka. Það sem ég legg áherslu á að við þurfum að tala um þetta á málefnalegan máta, horfast í augu við það að það geta komið upp vandamál og ótti þegar fólk með ólíkan bakgrunn mætist. Þá er lykilatriði að við ræðum það og horfumst í augu við þá staðreynd og reynum ekki bæla umræðuna heldur leitum leiða og lausna og sýnum hvort öðru umburðarlyndi. Og það er kannski það sem mér hefur fundist skorta á í umræðunni að undanförnu.“