Víkingaskjöldur og spjótsoddar á Dysnesi

23.06.2017 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Víkingaskjöldur og mannabein fundust í bátskumli á Dysnesi við Eyjafjörð í dag. Þá fundust spjótsoddar í sama bátskumli og víkingasverð fannst í fyrr í mánuðinum. Fornleifafræðingur á staðnum segir að alls staðar þar sem skóflu sé stungið niður á Dysnesi, þar finnist eitthvað.

Fornleifauppgröfturinn á Dysnesi við Eyjafjörð hefur gengið vel en nú síðast í morgun komu fornleifafræðingar niður á höfuðkúpu og leggjabein, víkingaskjöld og tvö spjót. Mannabeinunum sem fundust hefur á einhverjum tímapunkti í sögunni verið raskað af mannavöldum, af ástæðum sem fornleifafræðingar þekkja ekki. 

Skjöldurinn sem fannst var neðarlega í bátinum og er nokkuð vel farinn vegna þess að sjór hefur ekki náð niður að honum. Viðurinn úr skyldinum er hins vegar horfinn en nú er unnið að því að grafa upp skjaldarbóluna, sem er úr járni. Í öðru bátskumli, fáeinum skrefum frá hinu, fundust tveir spjótsoddar sem sömuleiðis eru nokkuð vel farnir.

Nú þegar hafa fornleifafræðingar staðfest að á Dysnesi séu sex kuml, þar af þrjú möguleg bátskuml, en hvergi á landinu hafa jafnmörg bátskuml fundist í einum kumlateig. Þá er óstaðfest hvort að í tveimur kumlum sem fundust í vikunni séu bátar. 

Á myndinni er höfuðkúpa í kumli á Dysnesi.