Forsætisráðherra ætlar ekki að segja af sér og hefur ekki íhugað það. Hann telur sig njóta trausts fyrir störf sín. Hann segist hafa átt að útskýra fjármál þeirra hjóna fyrr og finnst tilefni til að biðjast afsökunar á því hve lengi hann beið. Hér er viðtal Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur við Sigmund Davíð.

JVH: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, ætlar þú að segja af þér?

SDG: Ég ætla að halda áfram að vinna þau góðu verk, þau stóru verkefni sem ríkisstjórnin er enn að vinna að, og treysta því svo að þegar komi að kosningum þá verði ríkisstjórnin, og ég, dæmd af þeim verkum sem við höfum unnið. Og ef fólk vill blanda fleiru í það þá er það að sjálfsögðu þeirra val. Þannig gera menn upp kjörtímabilið.

JVH: Hefurðu íhugað að segja af þér?

SDG: Ég hef ekki gert það, nei, einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir allt er aðalatriðið í þessu máli að nú hefur verið staðfest að konan mín hefur staðið skil á öllu sínu, greitt alltaf til íslensks samfélags. Það hefur líka komið í ljós að í þeirri miklu baráttu sem ég hef verið í undanfarin ár hef ég tekið almannahagsmuni umfram allt annað. Svoleiðis að þessar meginstaðreyndir sem liggja fyrir eru ekki neikvæðar í sjálfu sér.

JVH: En þessi mikla reiði sem er í samfélaginu og það sem kom fram á þinginu í dag, siðrof og ímynd Íslands væri í húfi, nýturðu trausts til þess að halda áfram?

SDG: Ja, þú hefðir getað spurt mig fyrir mánuði síðan hvort ég nyti trausts og svarið væri að sjálfsögðu alltar; það fer eftir því hver er spurður. Stjórnmálamenn eru umdeildir og ég tala nú ekki um þegar koma upp svona mál. Þá er eðlilegt að menn að minnsta kosti vilji svör, vilji skýringar.  En ég vonast til þess að þegar menn kynna sér málið, skoða það af sanngirni, þá njóti ég trausts fyrir það.  En ég sjálfur, að sjálfsögðu, myndi gjarnan vilja að þessir hlutir hefðu þróast öðru vísi. Ég hef í öllum skrefum verið að reyna að gera mitt besta fyrir samfélagið.

JVH: Það er heimsfrétt að forsætisráðherra hafi geymt fé á aflandsreikningum. Ertu enn þá á því að það hafi verið í lagi?

SDG: Að sjálfsögðu er líklega enginn, nema jú líklega konan mín, sem hefði óskað þess jafnheitt að þetta fyrirkomulag hefði ekki verið sett upp þegar hún eignaðist þessa peninga og leitaði til bankans. Þetta er eitthvað sem maður velti ekkert fyrir sér lengi vel. Þetta var bara þetta fyrirkomulag á því hvernig bankinn hélt utan um peningana. Og ég held að það sé mjög æskilegt, mjög gott, að menn skuli vera búnir að breyta starfsháttum í fjármálafyrirtækjum, hvað svona hluti varðar. Því að þetta var náttúrlega, eins og er að koma mjög glögglega í ljós núna, gríðarlega umfangsmikið og algengt og jafnvel bara viðtekin venja þegar fólk sem átti umtalsverða peninga var annars vegar.

JVH: Sérðu eftir þessu? Hefðirðu viljað að þið hefðuð greint frá þessum upplýsingum fyrr í stað þess, eins og var kallað eftir í þinginu í dag, að leyna þeim?

SDG: Ég, auðvitað, velti þessu oft fyrir mér, hvort það væri til bóta að vera að tjá sig um þetta. Ég er ekki viss um að það hefði verið til bóta á sínum tíma að ég tæki upp á því, fyrstur þingmanna, að fara að blanda málefnum eiginkonu minnar í hin pólitísku átök, hörðu pólitísku átök sem voru á þeim tíma, hins vegar verð ég alveg að viðurkenna að ég hefði örugglega átt fyrr eftir að málið kom upp að fara að ræða málið, fara að útskýra það í fjölmiðlum. Ég hélt of lengi í þetta gamla prinsip að ekki mætti blanda eiginkonu minni í pólítíkina og mér finnst alveg tilefni til þess að biðjast afsökunar á því hvað ég beið lengi með það.

JVH: Er það ekki einmitt ástæðan fyrir þeirri reiði og gremju sem að er hér í samfélaginu akkúrat á þessari stundu sem við erum að tala saman á?

 

SDG: Ég held það séu margar ástæður fyrir gremju sem eru sumstaðar í samfélaginu og auðvitað er gremja margra skiljanleg en hún á sér ólíkar rætur. En í því sambandi er þó mikilvægt að við munum að þrátt fyrir allt hefur tekist á undanförnum árum að bæta lífskjör fólks í þessu landi hraðar heldur en ja, dæmi eru um í seinni tíð. Þannig að við erum að byggja upp, við erum að gera það betra að búa á Íslandi og vonandi fáum við tækifæri til þess að klára það verkefni, klára þessi stóru verkefni sem að bíða og verðum svo dæmd af því ef að fólki þykir að við höfum ekki staðið okkur nógu vel, þá fáum við skilaboð um það í kosningum eins og vera ber.

JVH: Hvaða áhrif hafa þessi mótmæli á þig sem að eru hér á Austurvelli núna, mánudaginn 4. apríl 2016?

SDG: Frá því að ég byrjaði í stjórnmálum þá hafa mótmæli verið tíð gegn ýmsum ríkisstjórnum og að ýmsum tilefnum, m.a. gegn minni ríkisstjórn í nokkur skipti. Íslendingar eru farnir að gera meira af því að lýsa skoðunum sínum með þessum hætti, svoleiðis að þetta er ekki eins nýtt og það var áður og maður hefur séð ýmislegt í þessum efnum það var mikil upplifun að vera í þinginu rétt eftir að ég var kjörinn formaður, þegar að það var í rauninni umsátursástand þar svo hafa menn á ýmsan hátt mótmælt af ýmsum tilefnum og það er bara sjálfsagður réttur fólks að gera það. 

 

JVH: Nú hafa margir sjálfstæðismenn lýst ekki yfir afdráttarlausum stuðningi við þig er trúnaðarbrestur milli stjórnarflokkana í þessu máli?

SDG: Nei nei, það er enganveginn trúnaðarbrestur milli stjórnarflokkana í málinu en maður auðvitað sýnir því skilning að þingmenn samstarfsflokksins eins og aðrir, vilji vera með allt á hreinu, vilji fá allar upplýsingar áður en þeir fara að vera með miklar yfirlýsingar um eðli málsins.

JVH: En, er stjórnarsamstarfið ekki í hættu vegna þessa?

SDG: Nei ég tel að það sé enginn ástæða til þess að við látum þetta mál setja strik í reikninginn varðandi þetta stjórnarsamstarf og ég tel reyndar gríðarlega mikilvægt að við gerum það ekki. Vegna þess að við erum að klára þessi stóru, gríðarlega stóru, umfangsmiklu mál. Það gengur vel, en það væri held ég mjög slæmt fyrir samfélagið allt ef að við næðum það. Þannig það er mikilvægt að ríkisstjórnin vinni að þessu áfram.

JVH: Þannig það er slæmt ef að þetta stjórnarsamstarf springur?

SDG: Það hefði verið slæmt áður, það er slæmt núna og verður slæmt alveg fram að kosningum því að það hefur gengið ljómandi vel og við ætlum að láta ganga vel áfram. 

JVH: Nú, stjórnarandstaðan heldur því fram að þú sért rúinn trausti, getur þú áunnið þér aftur það traust nema opna allt bókhaldið?

SDG: Já þá komum við aftur að spurningunni hversu langt eigi að ganga í þessum efnum, það er náttúrulega svolítið stórt skref að stíga að krefjast þess að maka eins stjórnmálamanns að hún fari að opna allt bókhald sitt. Þegar að hún er meirað segja búin að fá sérstaka yfirlýsingu um slíkt. En ég er alveg viss um að eiginkona mín er til í að gera hvað sem hún getur til þess að skýra þetta mál sem best.

JVH: Þú seldir konu þinni, helming í Wintris daginn áður en ný lög tóku gildi af hverju gerðir þú það?

SDG: Þegar að félagið var skráð, þá var þetta skráð á okkur bæði, við vorum með sameiginlegan bankareikning og bankinn skráði félagið á okkur bæði, gerði ef ég man rétt ráð fyrir að við værum gift. En aðalatriðið var þó, það er mikilvægt að hafa þetta í huga að eignirnar voru alltaf hjá henni. Hún lagði eignirnar inn í félagið og fékk á móti kröfu á félagið, svoleiðis að hlutabréfin í sjálfu sér voru einskis virði. Á árinu 2009 þegar að skipt var um umsýslufélag fyrir fyrirtækið, þá var fyllt út eyðublað þar sem kom fram að hún væri eigandinn. Það varð til þess að þeir höfðu samband til baka og spurðu: „Er þetta rétt? Á bara að vera einn eigandi því hér er skráður þessi Sigmundur.“ Og því var svarað að þannig ætti ekki að vera. Og það var þá lagfært í framhaldinu, gert með þessum einfalda hætti að færa þetta yfir fyrir einn dollar, hlutabréf sem að í rauninni var kannski frekar einskis virði heldur en eins dollars vegna þess að eignirnar allan tímann höfðu verið hennar.

JVH: Þú og þið hjónin eruð í heimspressunni í dag, kastljósið er á Íslandi eins og sjá má á Austurvelli í dag og hér er gríðarlegur fjöldi af erlendum fréttastofum. Hverju sérðu mest eftir í þessari atburðarrás, hvað hefðiru viljað hafa öðruvísi?

SDG: Ég hefði viljað vera betri í að taka viðtal, láta ekki slá mig algjörlega út af laginu sem að á nú reyndar sína forsögu, ég ætla ekki að verja tíma í að rekja það hér. En ég var algjörlega ruglaður í rýminu hvað menn væru að fara sem höfðu boðið mér í viðtal um þróun fasteignamarkaðar í Svíþjóð og á Íslandi. Svoleiðis að menn hefði nú alveg viljað að geta komið hlutunum frá sér skýrar strax í upphafi. En aðalatriðið núna er að við erum búin að leggja fram mikið magn upplýsinga með svörum af öllum þessum helstu spurningum sem helst hafa komið upp og mér hefur þótt ánægjulegt að sjá að í umfjöllun þessara erlendu fjölmiðla að margir þeirra, þessir virtari að minnsta kosti, taka sérstaklega fram að það sé ekkert sem bendir til nokkura afbrota eða undanskota í þessu tilviki.

JVH: Hvernig metur þú sjálfur stöðu þína sem forsætisráðherra Íslands í dag?

 

SDG: Ja, ég met stöðu mína þannig að ég sé búinn að vera í ríkisstjórn núna í hátt í þrjú ár og við höfum náð miklum árangri. Ég met stöðuna þannig að við séum mjög upptekin við það að klára mörg stór mál og vonandi fáum við gott svigrúm, fáum ráðrúm til þess að einbeita okkur að þeim málum, sem eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir samfélagið allt. Fyrir þjóðina svo við getum haldið áfram að bæta lífið í þessu landi.

JVH: Ertu laskaður eftir atburði síðustu daga og daginn í dag?

SDG: Já, auðvitað, ef maður er spurður bara svona út frá tilfinningum manns sjálfs þá auðvitað er þetta óskaplega leiðinlegt og sérstaklega, ég held að ég tali fyrir munn margra stjórnmálamanna þá þykir mönnum það alltaf erfitt þegar að fjölskylda blandast í málið með slíkum hætti og þetta hefur tekið mjög á konuna mína, mér hefur þótt erfitt að fylgjast með því. En hún stendur við bakið á mér í þessu áfram og hvetur mig til dáða eins og hún hefur alltaf gert, þar sem að hagsmunir hennar hafa aldrei skipt máli í því að ég ætti að berjast fyrir samfélagið allt.

JVH: Ætlar þú að halda áfram í stjórnmálum?

SDG: Ég ætla að gera það já.