Veit ekki af hverju Olsen neitar hasshlutanum

Saksóknari segist ekki vita af hverju Thomas Møller Olsen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, neitaði sök fyrir dómi í síðari lið ákærunnar um stórfellt fíkniefnalagabrot. Hann hefur við rannsókn málsins játað að hafa haft fíkniefnin í fórum sínum en sá framburður breyttist við þingfestingu málsins í dag.

Olsen neitaði því við þingfestinguna nú rétt eftir hádegi að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, en athygli vakti að hann sagðist einnig saklaus af síðari lið ákærunnar. Þar er hann ákærður fyrir að hafa geymt 23,4 kíló af hassi í káetu sinni um borð í togaranum Polar Nanoq og ætlað að flytja það til Grænlands „í ágóðaskyni“ eins og það er orðað í ákæru.

Olsen hefur við rannsókn málsins játað að hafa haft hassið í fórum sínum. „Já, hann hefur svo sem gengist við því að hafa haft þessi efni í vörslum sínum. Á hverju þessi neitun byggir, ég átta mig ekki alveg á því,“ sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari við fréttastofu strax eftir þingfestinguna.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega á hvaða forsendum hann neitar sök. Það gæti verið eitthvað í ákærutextanum, ég veit það ekki, það kom ekki fram. Ég reikna með að það skýrist kannski í næsta þinghaldi,“ segir hún.

Kolbrún segir að næstu skref í málinu velti á því hvað verjandi Olsen ákveði að gera. Hann fór í morgun fram á tveggja vikna frest til að kynna sér gögn betur og ætlar í framhaldinu að ákveða hvort hann telji þörf að skila inn greinargerð í málinu. Ef svo verði ekki þá verði tímasetning fyrir aðalmeðferð líklega ákveðin í næsta þinghaldi og þá geti málið gengið fljótt og vel fyrir sig.

„Ef þetta fer þannig þá fyndist mér ekkert ólíklegt að það yrði aðalmeðferð í þessu máli bara í maí,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir.