Myndband sem sýnir breskan blaðamann aka utanvegar á friðlýstu svæði í Reykjanesfólkvangi hefur vakið athygli. Málið er litið mjög alvarlegum augum segir upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar. Lögfræðingar stofnunarinnar undirbúa beiðni til lögreglu um að rannsaka málið.

Keyrir utanvegar á friðlýstu svæði

Á myndbandinu, sem birtist á vefsíðu The Sunday Times á sunnudag, sést blaðamaður keyra jeppa utanvegar í nágrenni Kleifarvatns. Kleifarvatn er í Reykjanesfólkvangi sem er um þrjú hundruð ferkílómetrar að stærð og er langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi. 

Þessi mynd sýnir hvernig svæðið leit út eftir aksturinn. Mynd frá Umhverfisstofnun.

Lögfræðingar umhverfisstofnunar vilja að lögregla rannsaki málið

Guðfinnur segir að umhverfisstofnun líti málið mjög alvarlegum augum. Þarna virðist vera ekið utan vegar sem er brot á lögum um náttúruvernd. Hann segir lögfræðinga stofnunarinnar vera að vinna í að útbúa beiðni til lögreglu um að málið verði rannsakað. Í lögum um náttúruvernd kemur fram að sá sem brýtur gegn þeim skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Séu náttúruspjöllin alvarleg er lágmarksupphæð sektar 350.000 krónur. Guðfinnur segist reikna með að lögfræðingar umhverfisstofnunar muni skila beiðni til lögreglu vegna málsins í dag.

Myndbandið sem um ræðir hefur nú verið fjarlægt af vef The Sunday Times.

Djúp hjólför eru áberandi í sandinum. Mynd frá Umhverfisstofnun.