Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, telur vel koma til greina að breytingar verði gerðar á samstarfi stjórnarflokkanna á næsta hálfa árinu.

Bjarni Benediktsson var gestur í Morgunvaktinni á Rás 1, í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem fram fer um helgina. Hann sagði uppstokkun í samstarfi stjórnarflokkana mögulega á næstunni. „Mér finnst það vel koma til greina að hreyfa til, bæði milli flokkanna og innan ríkisstjórnarinnar. Ég get vel séð fyrir mér að við gerum einhverjar slíkar breytingar. Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um slíkt en á næsta hálfa árinu væri rétt að taka þá ákvörðun um það ef til þess ætti að koma svo menn væru ekki að taka að sér ný verkefni þegar of stutt er til kosninga.“

Kjörtímabilið er rúmlega hálfnað. Síðast var kosið í apríl 2013 og að öllu óbreyttu verða næsta kosningar vorið 2017. Bjarni sagði að það hefði alltaf komið til greina að breyta til á þessum tímapunkti. „Ég hef alltaf verið opinn fyrir því og við ræddum það við stjórnarmyndunina við Sigmundur að svona í hálfleik myndum við kannski skoða þau mál.“