Tvær bátsgrafir á Dysnesi við Eyjafjörð

14.06.2017 - 18:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Allstaðar þar sem við stingum niður skóflu þar finnum við eitthvað," segir fornleifafræðingur á Dysnesi en í dag kom þar í ljós önnur bátsgröf til viðbótar við haug og bátsgröf sem greint var frá í fréttum í gær. Áform um byggingu stórskipahafnar á Dysnesi breytast ekkert við þennan uppgröft, segir hafnarstjóri.

Víkingasverð fannst í illa farinni bátsgröf í gær en báturinn í gröfinni sem fannst í dag er töluvert betur farinn.

„Hluti af bátinum er alveg ósnertur og við sjáum engin merki að hann hafi verið rændur af mönnum á einhverjum tímapunkti, þannig að við vonumst til að það sem er hérna undir moldinni hér sé alveg ósnert,“ segir Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur á svæðinu. Hún telur líklegt að fleiri minjar finnist í gröfinni, þar sem víkingasverðið hafi fundist í gröf sem var töluvert verr farin.

Fimm af tíu bátskumlum í Eyjafirði

Fornleifafundurinn er mjög merkilegur en eingöngu eru um 10 bátskuml þekkt á Íslandi. Þar af eitt sem fannst í hálfum kílómeter sunnan við Dysnes, í Kumlholto og tvö á Dalvík, utar í firðinum. Aðeins á Dalvík og á Dysnesi hafa fundist tvö bátskuml í sama kumlreit.

Áform um stórskipahöfn standa

Á Dysnesi eru uppi áform um að byggja stórskipahöfn. Ekki er búist við að fornleifafundurinn breyti þeim áformum. „Þetta hefur engin áhrif á uppbyggingu þar, sem vonandi fer í gang sem fyrst,“ segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Norðurlandi. Hann segist þó ekki vita hvenær framkvæmdir munu hefjast.

Hafnarsamlagið borgar fornleifarannsóknina sem hleypur á milljónum. Pétur segir þann kostnað óverulegan hluta af heildarkostnaði við uppbygginguna. „Við bara í rauninni verðum hér þar til svæðið verður fullkannað,“ segir Hildur sem reiknar með að rannsóknin taki einhverjar vikur enn.

Hér má sjá myndband Dysnes.is af fyrirhuguðum hafnarframkvæmdum.