Trumpfjölskyldan fær fyrirgreiðslur í Kína

14.05.2017 - 16:01
epa05783923 Ivanka Trump (R) and her husband, Jared Kushner (L), join US President Donald J. Trump and Japanese Prime Minister Shinzo Abe as they depart the White House for Florida after a press conference in the East Room of the White House in Washington
Ivanka Trump og Jared Kushner.  Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti, fjölskylda hans og tengdarfjölskylda hafa fengið verðmætar fyrirgreiðslur í Kína.

Nýjasta dæmið um slíkar fyrirgreiðslur er þegar Nicole Meyer, systir Jared Kushners, tengdarsonar Trumps, hvatti kínverska fjárfesta til þess að leggja fé í fasteignaverkefni Kushner-fjölskyldunnar í New Jersey, rétt við New York borg. Meyer hét því að þeir sem legðu hálfa milljón dala í verkefnið, fengju sérstaka vegabréfsáritun til Bandaríkjanna sem ætluð er fjárfestum og veitir þeim dvalarheimild í Bandaríkjunum. Þessa söluræðu hélt Meyer aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Trump undirritaði tilskipun um vegabréfsáritanirnar.

Sjálfur hefur Trump beðið áratugum saman eftir að fá viðurkenningu kínverskra stjórnvalda á 38 vörumerkjum í sinni eigu. Í mars á þessu ári fékkst þessi viðurkenning loks, aðeins um tveimur mánuðum eftir að Trump varð forseti Bandaríkjanna.

epa05889104 (FILE) - A combo picture made available on 10 February 2017 (reissued 05 April 2017) shows (L) US President Donald J. Trump during Attorney General Jeff Sessions' swear-in ceremony at the White House in Washington, DC, USA, 09 February
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Xi Jinping, forseti Kína.  Mynd: EPA

Þá hafa Kínversk stjórnvöld veitt dóttur Bandaríkjaforseta, Ivönku Trump, leyfi til að selja handtöskur og skartgripi og reka baðhús í Kína. Þessi leyfi voru veitt 6. apríl, sama dag og forseti Kína, Xi Jinping, snæddi kvöldverð með Trump Bandaríkjaforseta og Jared Kushner, eiginmanni Ivönku og ráðgjafa forsetans, í Mar-a-Lago á Flórída.

epa05849924 US President Donald J. Trump (R), with Senior Advisor Jared Kushner (L), walks the colonnade to board Marine One on the South Lawn of the White House in Washington, DC, USA,15 March 2017. President Trump will participate in events in Michigan
 Mynd: EPA

Trump var harðorður í garð Kína í kosningabaráttu sinni fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Hann sakaði kínversk stjórnvöld um að falsa gengi kínverska júansins. Sökum þess þurfi Bandaríkin að glíma við gríðarlegan viðskiptahalla. Kína hafi „nauðgað“ Bandaríkjunum með efnahagsstefnu sinni.

Donald Trump, Ivanka Trump og Jared Kushner hafa öll hætt afskiptum af viðskiptaveldum sínum, að eigin sögn. Viðskiptaveldi forsetans er nú stýrt af sonum hans, Donald Jr. og Eric Trump. Margir telja fyrirkomulagið ófullnægjandi. Þá hefur lítið verið gefið uppi um hvernig skilið er á milli starfa Ivönku Trumps og Jared Kushners sem ráðgjafa Bandaríkjaforseta og vörumerkjanna sem bera nöfn þeirra.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV